Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Ímyndir og raunveruleiki

Myndir og orð

Sjónarhorn

Raunveruleiki

Auglýsingar

Táknfræði

Hver á heima hér?

Kynjamyndir

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Í lífi okkar úir og grúir af ímyndum. Auglýsingaskilti kapítalískra ríkja hafa verið túlkuð sem tákn frelsis og þess sem önnur ríki skortir. Spurning er hvort frelsi fylgi auglýsingum, hvað með kaupæði, anorexíu, klámvæðingu og fleira? Ímyndaflæðið hefur einnig breytt upplifun okkar af veruleikanum. Áður fyrr var fólk hrætt við að láta taka af sér mynd, fékk tvífarahroll, en í dag sækist fólk eftir því. Er ímyndin kannski raunverulegri, nauðsynleg sönnun á mikilvægi okkar og hamingju?

Hlauptu og kauptu:

Auglýsingar eru alltumvefjandi, beinar og óbeinar:

- í blöðum
- í tímaritum
- á neti
- í bæklingum
- í sjónvarpi
- í útvarpi
- í bíó
- í umhverfinu
- á fötum og hlutum
- á sýningum o.s.frv.

Kina nútímans

Verslunarmiðstöðvar

Verslunarmiðstöðvar eru mekka neysluhyggjunnar. Kringlan og Smáralind gegna stóru hlutverki í lífi flestra Íslendinga, landsbyggðarfólks ekki síður en malarbúa. Áhrif þessara miðstöðva á miðbæ Reykjavíkur eru talsverð en enn er ekki útséð um hvort þau séu góð eða slæm. Smáralind er verslunargata með torgi en Kringlan virkar eins og mörg sambyggð torg.

Í verslunarmiðstöðvum er allt undir einu þaki. Úlfhildur Dagsdóttir segir: „Þangað sækir almenningur ekki aðeins vöru og verslun, heldur skemmtun og félagsskap, fólk fær að sýna sig og sjá aðra, án þess að eiga á hættu að bindið fjúki og hárgreiðsluna rigni niður" (Úlfhildur Dagsdóttir. 2002).

Í Ameríku er hægt að gera bókstaflega allt í mollunum og anga af þeirri stefnu má sjá í veitingahúsum, kaffihúsum, bíóhúsum og barnagæslu í íslenskum verslunarmiðstöðvum.

Hermann Stefánsson hefur skrifað menningarrýni um skyndibitastaði: „Fátt er nútímalegra en skyndibitinn. Fólk gleypir hann í sig á hlaupum og hugsanlega fyrirlítur hann um leið vegna þess að hann er holdgervingur nútímalífs: tímaleysið og hraðinn uppmálaður." Um Stjörnutorg, opna svæðið í Kringlunni seir hann: „leitast er við að skapa þá sjónhverfingu að maður sé staddur einhversstaðar annarstaðar en maður er. Reynt er að vekja upp andblæ og stemmningu tiltekinna þjóðlanda" (Hermann Stefánsson. 2003:118).

Fyrir utan fjölþjóðlega þáttinn er mikið lagt upp úr exótísku, framandi andrúmslofti í tíma og rúmi. Til dæmis eru pálmatré í Smáralind og mikil áhersla á ljós og hita. Í Kringlunni er meiri áhersla á klassískan glæsileika, marmaragólf og gosbrunna.

Kringlan

Smáralind

Raunveruleiki?

Spurningar um raunveruleikann eru mjög mikilvægar í ímyndaheiminum. Hvað er raunverulegt - og hvaða máli skiptir það hvað er raunverulegt? Mikið er talað um möguleika mynda til að blekkja á tímum tölvutækni, en ljósmyndir hafa alltaf verið meðhöndlaðar og lagaðar til, alveg frá upphafi ljósmyndatækninnar. Er góð ljósmynd mynd sem sýnir manneskju fallegri en hún er?

Vissulega er þó auðveldara að blekkja með myndum í dag og það eru til mörg skemmtileg dæmi um myndir sem hafa verið ‘fótósjoppaðar’ eins og þessi mynd af tónlistarkonunni Möggu Stínu í auglýsingu um sýningu á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Hvað var lagað og hver eru áhrif viðgerðarinnar?

Áhrif þessara myndrænu blekkinga eru kannski mikilvægari fyrir það að margir tengja saman að sjá og trúa: „Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það,” eða „Ég trúi ekki mínum eigin augum,” eins og augun séu sérlegur handhafi raunveruleika og sannleika. Á samskonar forsendum hafa ljósmyndavélar þótt hlutlaus fyrirbæri sem geri ekkert annað en að skrá þann veruleika sem við þeim blasir. Ljósmyndir hafa lengi verið notaðar sem sönnunargögn og þrátt fyrir að allir vita að ljósmyndum er hægt að breyta. Það má því segja að fólk blekki sig meðvitað þegar það gengst inn á hugmyndina um ljósmynd sem sannleiksmerki.

Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is