Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Myndir og orð

Myndir og orð

Sjónarhorn

Raunveruleiki

Auglýsingar

Táknfræði

Hver á heima hér?

Kynjamyndir

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Myndefni í vestrænni menningu hefur veika stöðu gagnvart orðinu. Hið almenna viðhorf er að myndin sé eitthvað augljóst og yfirborðslegt meðan orðið er flókið, margrætt og krefjist lesturs. Þó eru líka til máltæki sem segja að myndir segi meira en þúsund orð og að sjón sé sögu ríkari.

Jarðarför í rigningu" eftir Óskar Árna Óskarsson

Líkan Gillian Rose

Það viðhorf að myndir séu ‘augljósar’ eða ‘yfirborðskenndar' getur ekki verið rétt, myndir eru merkingarbærir textar og krefjast lesturs jafnmikið og orð. Og ljóð Óskars Árna Óskarssonar eru einmitt gott dæmi um hvernig þetta tvennt fellur saman. Þetta er ljóð hans „Jarðarför í rigningu“. Skoðum það útfrá líkani Gillian Rose um þrjú grunnatriði fyrir gagnrýna nálgun á myndir:

  1. Það á að taka ímyndir alvarlega. Myndir hafa sín eigin áhrif og það þarf að horfa vel á þær og skoða hvað er á þeim. Til dæmis samanstanda ljóðmyndir Óskars Árna af bókstöfum og rittáknum.

  2. Félagslegt umhverfi myndarinnar er mikilvægt. Hvar birtist hún og í hvaða samhengi? Myndir Óskars Árna eru kallaðar ljóð, skiptir það máli fyrir það hvernig við lesum myndirnar? Hvað gerist ef titillinn á ljóðinu er tekin í burt?

  3. Sá sem les myndir veltir fyrir sér sínu sjónarhorni og er meðvitaður um það. Hvaða þekkingu kem ég með inní myndina? Les ég ljóð? Er ég kannski Kínverji sem nota allt annarskonar rittákn?

Hvað er að gerast í þessu ljóði? Þarna er líkfylgd að fylgja látnum til grafar. Það rignir, eins og er algengt í jarðarförum í bíómyndum. Fyrir utan líkfylgdina standa fjórir, þrír í hóp en einn utan hópsins. Hverjir eru þetta? Bara einhverjir sem eiga leið hjá? Ein kenning gæti verið sú að þessi eini sé morðingi og að hinir þrír séu lögreglumenn að fylgjast með. Önnur hugmynd gerir ráð fyrir að þessir þrír skipti litlu máli en að þessi eini sé viðhald hins látna. Þannig er hægt að sjá margt út úr svona einfaldri mynd. Hér eru tilvísanir í kvikmyndir, bæði almennt hvað varðar rigninguna og svo meira sérhæft til bæði glæpamynda og ástardrama.

Skoðum annað dæmi um ljóð Óskars Árna, „Gunnar á Hlíðarenda“:

Gunnar á Hlíðarenda“ eftir Óskar Árna Óskarsson

Myndir hafa ólíka merkingu eftir því hvar þær birtast og hvaða þekkingu lesandinn býr yfir. Margir álíta að myndir séu alþjóðlegt tungumál vegna þess að þær eru svo augljósar. Hér er dæmi um hvernig merking myndarinnar fer eftir þekkingu þess sem horfir á hana/les hana. Ef lesandi þekkir ekki Íslendingasögurnar er ólíklegt að hann sjái mikið út úr þessari mynd. Kannski ef hann er hugmyndaríkur gæti hann séð fyrir sér einhverskonar árás eða stríð.

Fyrir þá sem þekkja Njálu þá er hér lítil mynd sem tekur saman mjög mikilvæga atburði í sögunni. Hér stendur hetjan Gunnar einn með bogann og verst árásarmönnum sínum - og það má túlka i-in sem eru á hlið bæði sem örvar og sem árásarmenn á hlaupum að Gunnari. Að auki getur lesandi séð fyrir sér átök þeirra hjóna um streng í bogann þegar Hallgerður neitar að gefa Gunnari lokk úr hári sínu, dauða Gunnars og svo endalokin Njálsbrennu. Þannig getur ein lítil mynd teiknað upp stóran hluta frægrar Íslendingasögu.

Myndlæsi er menningarlegt fyrirbæri alveg eins og læsi á ritað mál. Til að geta lesið ritað mál þarftu að kunna viðkomandi tungumál og lestur á myndum getur verið mjög ólíkur eftir menningarsamfélögum, hópum innan menningarsamfélaga og jafnvel einstaklingum. Við lesum myndir frá vinstri til hægri en öfugt í arabalöndum og því þarf við þýðingar á auglýsingum og myndabókum að taka tillit til þess, svo þvotturinn komi t.d. ekki óhreinn úr vélinni.

Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is