Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Kynjamyndir

Myndir og orð

Sjónarhorn

Raunveruleiki

Auglýsingar

Táknfræði

Hver á heima hér?

Kynjamyndir

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Staðalmyndir

Á Vesturlöndum hafa ákveðnar staðalmyndir verið ríkjandi fyrir konur. Annars vegar eru þær heilagar, ólíkamlegar og fullkomnar líkt og María mey eða hættuleg tálkvendi líkt og Eva. Enginn millivegur er í boði. Fjallkonan er dæmi um móðurina en í auglýsingum er hóran algengari.

Í öðrum trúarbrögðum er samband kynjanna sýnt öðruvísi, frumstæð list miðlar sameiningu og gagnkvæmi sem virkar oft groddaleg fyrir okkur sem erum vön óvirkum konum sem eru til sýnis fyrir áhorfandann. Vestræna glápið er því ekki saklaust, því fylgir valdbeiting. Mikil áhersla er á nekt og stellingarnar svipaðar. Konur eru oftast sýndar að framanverðu og mikil áhersla er lögð á fótleggi.

Á myndinni Nude eftir Modigliani má sjá hið innhverfa augnaráð sem er svo dæmigert fyrir konur, þær eru ófókuseraðar og virka ekki í djúpum pælingum, meira eins og sofandi. Á myndinni Bacchus, Ceres og Cupid eftir Von AAchener er tengslaleysi milli parsins mjög ríkjandi, konan situr uppstillt og horfir til áhorfandans, en maðurinn horfir á hana. Hún er uppteknari af þeim sem horfir á úr fjarlægð en þeim sem hún er hjá.

Nude eftir Modigliani

Bacchus, Ceres og Cupid eftir Von AAchener

Að setja saman skáp

Svíar eru mjög meðvitaðir og jafnrétti en hvað kemur í ljós þegar myndir úr Ikea bæklingi eru skoðaðar? Hér má sjá ungt hvítt par, og hún virkar stærri en hann sem er óvenjulegt. Í byrjun hjálpast þau að við samsetninguna á skápnum.

Síðan þegar farið er að negla er það hann sem neglir en hún styður við:

Í bæklingnum eru tvær leiðir til að negla bakið á skápinn, annarsvegar með skápinn liggjandi á gólfinu, en hinsvegar með skápinn uppréttan. En í báðum tilvikum er það karlmaðurinn sem heldur á hamrinum og konan sem styður við.
Í lokin þegar þarf að bora þá er hún víðs fjarri, horfin úr myndinni.
Ekki er óvenjulegt að karlmenn séu ráðandi við samsetningu húsgagna en í leiðbeiningum frá sænsku stórfyrirtæki er athyglisvert að ekkert er gert til að breyta staðalmyndum og gera hlut kvenna (og ólíkra kynþátta) jafnan.

Æsandi nærföt

Sömu sögu er að segja af nærfataauglýsingum frá Hagkaup. Í stórum bæklingi eru nokkrar síður með myndum af nærfatnaði. Stúlkunum er stillt upp á freistandi hátt, íklæddum efnislitlum nærfötunum á stórum myndum meðan auglýsingarnar um karlmannanærfötin taka mun minna pláss. Í sumum tilfellum eru nærfötin einfaldlega sýnd í pakkningunum, í annarri röð mynda er miðbik karlmannsins myndað (öfugt við allan búk konunnar og höfuð hennar), á algerlega látlausan hátt, engin freistandi stelling hér.

Meðvitaðar auglýsingar

Til eru auglýsingar sem ganga gegn hefðbundinni notkun á kvenlíkamanum eins og þessi íslenska auglýsing gegn mansali á konum. Hér er dæmi um mjög íróníska myndhverfingu þar sem vísað er í aðrar auglýsingar og þá hefð að hlutgera konur. Hér er nektin ekki kynferðisleg heldur átakanleg, konurnar eru kjöt, í þessu tilfelli kjúklingavængir. Takið eftir textanum og verðmerkingunni: á verðmiðanum stendur Söluvara? og verðið er xxx, sem getur staðið fyrir óþekkta upphæð, eða eitthvað sem er ritskoðað vegna kynferðislegs innihalds (X-rated á ensku).

Hér má sjá sjá aðra meðvitaða auglýsingu, umsnúning á hefðbundnum bílaauglýsingum með berum konum á húddinu. Konan hér á húddinu er ófrísk og auglýsir fjölskyldubíl:
Á þessum dæmum má sjá að engin miðlun er hlutlaus eða náttúruleg. Alltaf á sér stað val og mikilvægt er að neytendur séu gagnrýnir á það myndefni sem flæðir yfir þá. Hvernig konur eru oft sýndar samrýmist ekki nútímaþjóðfélagi og svo virðist sem klámvæðing síðari ára sé stórt skref aftur á bak. Frægir fataframleiðendur hafa verið gagnrýndir fyrir auglýsingar sem gera út á heróínútlit, anorexískt útlit, nauðgunar- og barnaklámsmyndmál í auglýsingum o.s.frv. Ekki er von til þess að ritskoðun verði hert svo eina ráðið fyrir fyrir mann er að skoða vel það sem borið er á borð og samþykkja það ekki hugsunarlaust.
 
Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is