Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Hver á heima hér? Að lesa í umhverfið

Myndir og orð

Sjónarhorn

Raunveruleiki

Auglýsingar

Táknfræði

Hver á heima hér?

Kynjamyndir

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Merking auglýsinga ræðst af því hvernig þær eru settar fram og í hvaða samhengi þær birtast, hvaða efni er umhverfis þær, td. í blaðinu. Auglýsing um munaðarvöru er annarleg ef næst henni er td. fréttamynd af hungruðum börnum. Gott er því að hafa þrjá lykla Rose í huga: að skoða myndirnar sjálfar vel, að huga að samhengi og umhverfi myndarinnar og að lokum að velta fyrir sér sínu eigin sjónarhorni.

Gamlar auglýsingar frá Stöð 2 eru gott dæmi um hvernig við lesum í það umhverfi sem birtist á myndunum. Á auglýsingunum er sjónvarpstækið sýnt sem hjarta heimilisins og áhersla lögð á miðlunina sjálfa, þá félagslegu athöfn sem felst í sjónvarpsglápi. Þessi mikilvæga staða sjónvarpstækisins er sýnd í því að hafa tækið á miðju síðanna umkringt auglýsingum fyrir þáttaraðir og kvikmyndir. Tækið sjálft og umgjörð þess bera í sér merkingu. Þannig má á myndunum sjá hvers konar fólk býr á hverjum stað í íslensku fjölmenningarþjóðfélagi.

Hér býr líklegast eldri kona eða hjón og á sjónvarpið hefur verið stillt ljósmyndum, auk bikars og barnaskópars sem búið er að bronsa. Ljósmyndirnar, skórnir og bikarinn eru staðgenglar barnanna sem líklegast eru löngu farin og staðfesta ást foreldranna á þeim.

Táknmyndirnar eru ljósmyndirnar af börnunum táknmiðið er því helgigripur: þannig verður sjónvarpið að tákni fyrir altari. Samkvæmt Peirce fellur sjónvarpið sem altari undir symból eða merki, það eru engin líkindi, en táknræn merking ræðst af samhengi og ummerkjum.
Þættirnir í kring eru gamanþættir, meðal annars um fjölskyldur og einhleypinga á leið í hnapphelduna.

Hér má sjá afskaplega gamaldags menningarheimili. Enginn íburður og saumakarfa undir eldgömlu sjónvarpstækinu. Heimilið speglar nafn þáttarins Sjálfstætt fólk enda virðist Laxness í öndvegi ofan á sjónvarpinu. Sjálfsætt fólk er táknmynd fyrir skáldsögu en táknmiðið er mun víðtækara og nær bæði til verka Laxness, pólitískra skoðana hans (styttan af Lenín) og stöðu hans í íslenskum menningarheimi. Til hægri má gægjast inn í glæsilegt heimili þar sem einhver hefur hreiðrað um sig. Í textanum og fyrirsögninni er Jón Ársæll að bjóða fólki inn á gafl hjá öðru fólki, í heimsókn.
Á þessari mynd gegnir sjónvarpið hlutverki jólatrés og enn má sjá heimili eldra fólks. Þannig birta myndirnar þrá eftir horfnum tíma, rólegu og öruggu fjölskyldulífi. Algjörri andstæðu minimalismans sem tröllriðið hefur íslenskum heimilum síðustu ár.

Umhverfis eru auglýstar kvikmyndir af ýmsu tagi, hrollvekjur og spennumyndir, sem einnig mynda andstæðu milli öryggis heimilisins og þeirrar framandlegu og ævintýralegu skemmtunar sem finna má í sjónvarpinu.
Hér getur að líta heimili innbrotsþjófsins og þáttaröðin sem er auglýst fjallar um karlmenn og kynlíf. Enn á ný er mikilvægt að skoða það sem er á myndinni: Hvað er það sem gefur til kynna að þetta er heimili innbrotsþjófs en ekki sárasaklauss piparsveins?
Og innflytjendur fá sitt pláss, en ansi lítið, neðarlega, út í horni og á baksíðu bæklingsins, og þar eru engir þættir í kring. Athugið að hér verðum við að gæta sérlega vel að því hvert okkar sjónarhorn er: Er þetta okkar sýn á innflytjendur? Og ef svo er: Hvaðan fáum við hana?
Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is