Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur

 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Teiknistílar

Myndasögur

Teiknistílar

Rammar - Tinni

Rammar - Ástríkur

Rammar - Goðheimar

Myndbygging - Vegur Dixie

Stíll - Sorte sider, Persepolis
og Monkey vs. Robot

Manga

Íslenskar myndasögur

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Myndasögur eru ólíkar eftir því hvort þær koma frá Bandaríkjunum, Evrópu eða Japan og eru þær stundum flokkaðar eftir þessum löndum og heimshlutum. Bandarísku sögurnar eru þekktastar fyrir ofurhetjusögur eins og Súpermann, Batmann og Spidermann, evrópsku sögurnar eru þekktastar fyrir ævintýralegri og fyndnari sögur eins og Ævintýri Tinna, Ástríks-sögurnar og sögurnar af Sval og Val og Gorminum. Japönsku sögurnar eru þekktastar fyrir útlitið, en það einkennist af stórum kringlóttum augum og barnslegum persónum. Þær eru oft líka ævintýrasögur, stundum með yfirnáttúrulegum atburðum og geta verið mjög fyndnar.

Ýmsir myndasöguhöfundar og fræðimenn hafa skrifað um hvernig myndasagan virkar, hvernig orð og myndir tengjast og hvernig útlínur, stærð mynda og myndaramminn hefur áhrif á það hvernig myndasagan er lesin og skilin. Hér verða skoðuð nokkur dæmi.

Teiknistíllinn skiptir miklu máli fyrir myndasögur og í grein í bókinni Tungumál myndasögunnar (The Language of Comics) fjallar Jan Baetens um hvernig teiknistíllinn er líka tungumál, ekki síður en orðin sem fylgja myndunum.

Ofurhetjusögur eru gott dæmi um það hvað teiknistíllinn fellur vel að viðfangsefninu og segir söguna að stórum hluta. Ofurhetjusögur fjalla um fólk sem hefur óvenjulega krafta og hæfileika og ver ævi sinni í að bjarga fólki frá glæpamönnum og heiminum öllum frá ýmiskonar ógnum. Í ofurhetjusögum er lögð áhersla á að sýna líkama ofurhetjunnar á sem glæsilegastan hátt og gefa þannig til kynna styrk og kraft. Sömuleiðis er mikið lagt upp úr hasar og myndirnar fullar af spennu og hraða.

Súpermann

Margir tengja myndasögur fyrst og fremst við og amerískar ofurhetjur eins og Súpermann. Súpermann er líklega ein þekktasta persóna myndasögunnar. Hér sjáum við hann á forsíðu fyrsta myndasögublaðsins sem hann birtist í árið 1938 en höfundar sögunnar eru Jerry Siegel og Joe Shuster.

Á forsíðunni er Súpermann með bíl á lofti sem hann er að hrista og reka í stóran stein. Líkami hans er grannur en stæltur og rauða skikkjan flaksast til, enda er eins og hetjan sé á fleygiferð. Allt í kring er fólk á hlaupum burt frá Súpermann og eitt dekk rúllar um sviðið. Yst á myndinni, sem er mestöll á gulum bakgrunni, má sjá dekkri umgjörð með mörgum þéttum línum, en þær gefa til kynna hraða og kraft og ýta undir heildarmyndina sem einkennist öll af hraða, styrk og krafti.

Andrés Önd

Á sama hátt gefa mjúkar og sveigðar útlínur og stór augu Andrésar andar til kynna eitthvað barnslegt og glaðlegt. Dýrin eru bústin og stélin sem snúa upp miðla léttleika. Andrés önd sögurnar er dæmi um myndasögur sem nefnast einu nafni ‘fyndin dýr’. Sögurnar um Súpermann og Andrés önd henta öllum aldurshópum, allt frá ungum börnum til fullorðinna lesenda.


Þessi forsíða frá 2004 er líka gott dæmi um það hvernig myndasagan fjallar um sjálfa sig, en hér situr Andrés og les Andrésar-andar-myndasögu og fyrir aftan hann (við glugga eða á mynd?) stendur hópur af Andrés öndum og les yfir öxlina á honum. Hér erum við minnt á að allir lesa Andrés önd og félaga, líka Andrés önd sjálfur!

Tinni

Andrés önd tilheyrir Disney-samsteypunni og kom fyrst fram árið 1934 og er því fjórum árum eldri en Súpermann. Enn eldri er Tinni, en höfundur hans Hergé, teiknaði hann fyrst árið 1929.

Hergé notaði teiknistíl sem hefur verið kallaður ‘hreinlína’, og er sá stíll nokkuð algengur í evrópskum myndasögum. Tinni er gott dæmi um helstu einkenni klassísku evrópsku hefðarinnar, en söguþráður bókanna er yfirleitt raunsæislegur þó ýmsir ævintýralegir atburðir gerist og myndmálið endurspeglar þetta.

Sögurnar segja frá Tinna, ungum blaðamanni sem flækist í ýmis dularfull mál sem hann síðan leysir úr.

Ann Miller sem fjallar um evrópskar myndasögur bendir á að þessum hreinlínustíl fylgi hugmyndafræði sem segja má að sé klassísk. Í myndunum er teiknaður upp skiljanlegur og rökréttur heimur. Þetta birtist meðal annars í því að hlutföll og fjarvídd er rétt - allt er hreint og beint eins og orðið hreinlína gefur til kynna.
Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is