Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur

 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Manga

Myndasögur

Teiknistílar

Rammar - Tinni

Rammar - Ástríkur

Rammar - Goðheimar

Myndbygging - Vegur Dixie

Stíll - Sorte sider, Persepolis og Monkey vs. Robot

Manga

Íslenskar myndasögur

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Deathnote

Manga er japanska orðið yfir myndasögur. Margar persónur í manga eru mjög barnslegar þrátt fyrir að viðfangsefnið sé ekki endilega fyrir börn. Þetta kemur að stærstum hluta til af því að augu persóna í manga eru sérlega stór og kringlótt, en ástæða þess er talin vera áhrif frá Disney teiknimyndum. Þessi kringlóttu augu eru eitt helsta einkenni japanskra myndasagna.

Hér í sögunni Deathnote sjáum við dæmi um teiknistílinn í manga sem er um margt mjög ólíkur bandarískum og evrópskum sögum. Þó eru sameiginleg einkenni, sérstaklega hafa japanskir teiknarar notað það stílbragð Hergé að hafa bakgrunna raunsæislega teiknaða meðan persónur eru einfaldari.

Takið eftir herbergi piltsins sem er aðalsöguhetja í þessari sögu sem segir frá því að dauða-djöfull gefur mennskum dreng vald yfir lífi og dauða. Annað einkenni manga eru miklar nærmyndir. Athugið að sagan er lesin frá hægri til vinstri, ekki frá vinstri til hægri eins og við erum vön.

Mink

Death Note er saga fyrir stráka þó að hún sé mjög vinsæl af stelpum líka, en ein leiðin til að þekkja stelpu- og strákasögur í sundur er að skoða augun, en þau eru enn stærri í stelpusögunum.

Mink eftir Tachikawa fjallar um litla stelpu sem verður að poppstjörnu.

Augun segja mikið um persónuna og tilfinningar hennar. Þegar þau eru orðin svona risastór og fljótandi gefur það til kynna miklar tilfinningar, ást og rómantík. Annað merki um ást og rómantík birtist svo í umhverfi stelpunnar, en þegar fjallað er um sterkar tilfinningar birtast blóm á síðunum umhverfis þann sem er ástfanginn - eða elskaður. Takið líka eftir að rammarnir eru allir á ferð og flugi - hér er í raun varla ætlast til að sagan sé lesin frá ramma til ramma heldur er öll síðan einn stór rammi með mörgum litlum römmum sem sýna nærmyndir af völdum atriðum.

Sword of the Dark Ones

Japanir nota mikið táknmál í myndasögum sínum og það getur verið erfitt að lesa þær fyrir þá sem eru óvanir myndasögum. Annað einkenni manga er mikil áhersla á að færa hljóð í myndrænt form. Hljóð er mjög mikilvægt í myndasögum og teiknarar nota ýmsar aðferðir til að skapa hljóð, bæði með því að stækka letur og breyta útlínum á talblöðrum. Japanskir teiknarar teikna yfirleitt hljóðið beint inná myndirnar og láta það falla að myndmálinu. Þessi hljóðtákn eru svo mikilvægur hluti myndarinnar að þau eru oft ekki þýdd, heldur eru japönsku táknin látin standa.

Hér verður skoðað dæmi úr sögunni Sword of the Dark Ones eftir Tsukasa og Kentaro. Þessi saga er fantasía og segir frá baráttu manna við vampýrur. Aðalsöguhetjan er mikill bardagakappi og á risastórt sverð og stór hluti sögunnar lýsir bardögum hans. Sjá má hvernig sveiflur sverðsins skera í sundur staf. Hljóðið sem myndast þegar bútarnir úr stafnum detta fellur næstum saman við bútana sjálfa og saman myndar þetta eina heildstæða mynd.
 
Á þessari opnu er aftur dæmi um hvernig hljóðin eru felld inn í myndmálið en hér birtist annað einkenni manga en það er mikil notkun á línum sem tákna hraða. Japanir nota þessar línur mjög mikið til að skapa kraft og hreyfingu í myndmálið. Takið líka eftir að letrið í talblöðrunni er stórt og blaðran er með oddum, en hvoru tveggja gefur til kynna hátt hróp.

Lone Wolf and Cub

Japanir hafa líka notað myndasöguna til að segja raunsæjar sögur frá tíma samúræjanna. Sagan Lone Wolf og Cub eftir Kazuo Koike er sérstök fyrir það að þar ferðast samúræi um Japan með son sinn barnungan í vöggu. Stíllinn á þessari sögu er gerólíkur hinum sögunum, hér eru teiknilínurnar fínlegri og allt yfirbragð raunsæislegra og endurspeglar betur japanskan uppruna sagnanna.

Öll þessi dæmi eru í svart hvítu, en manga er yfirleitt svart hvítt og sjaldnast í lit.

Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is