Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

 

Myndasögur

Myndasögur

Teiknistílar

Rammar - Tinni

Rammar - Ástríkur

Rammar - Goðheimar

Myndbygging - Vegur Dixie

Stíll - Sorte sider, Persepolis og Monkey vs. Robot

Manga

Íslenskar myndasögur

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Myndasagan hefur verið skilgreind sem raðmyndaform (Will Eisner 1985). Í myndasögu tengjast orð og myndir saman í eina heild, yfirleitt til að segja einhverskonar sögu í röð af myndum.

Myndasagan eins og við þekkjum hana í dag varð til í lok nítjándu aldar, en þá fóru að birtast í dagblöðum myndasögur, stundum ein mynd, stundum röð mynda, sem sýndu sömu persónuna aftur og aftur í nýjum og nýjum aðstæðum. Enn í dag eru það myndasögur í dagblöðum sem flestir þekkja.

Sumir álíta að myndasaga í einni mynd sé ekki myndasaga heldur stök skopmynd, en hér verður talað um myndasögur bæði sem eina mynd og röð mynda. En það er mikilvægt að muna að það eru sagðar allskonar sögur í myndum sem ekki eru endilega myndasögur - eða eru þær kannski myndasögur?

Í íslenskum miðaldahandritum eru dæmi um myndskreytingar (lýsingar) sem minna mjög á myndasögur, eins og til dæmis á þessari síðu úr Stjórn, skinnhandriti frá þrettándu öld sem inniheldur meðal annars Biblíuþýðingar.

Úr Stjórn, íslensku bibíuhandriti frá 13. öld

Í upphafsstafnum T er komið fyrir mynd af því þegar Abraham ætlar að fórna syni sínum Ísak, en þá kemur engill svífandi (takið eftir skýinu sem sveigist eins og hraðalína í nútíma myndasögum) og grípur um sverðið. Fyrir neðan sést hrútur fastur á hornunum í runna en honum verður fórnað í staðinn fyrir Ísak. Neðst á síðunni er svo Abraham að leggja af stað til fórnarstaðarins með sverð í vinstri hendi, en eiginkona hans Sara eltir hann og biður hann að hætta við.

Fyrir utan myndasögur í dagblöðum eru þekktustu myndasögurnar líklega frá Bandaríkjunum og Belgíu. Þær eru Súpermann, Andrés önd og Tinni. Í dag eru japanskar myndasögur, sem kallast manga, að verða æ þekktari.
Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is