Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur

 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Samspil orða og mynda

Myndabækur

Dimmalimm verðlaunin

Flokkun

Saga

Hugmyndafræði

Lyklar Mobiusar

Samspil orða og mynda

Tákn

Bókahönnun

Gott kvöld

Sýnishorn íslenskar

Sýnishorn erlendar

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Kontrapunktar/árekstrar

Í bók Mariu Nikolajeva og Carole Scott frá 2001, How Picturebooks Work, segja þær stöllur sérkenni myndabóka sem tegundar vera samspil orða og mynda. Því sé ekki hægt að skoða annaðhvort bækurnar útfrá orðunum eða myndunum heldur beina sjónum að þeim texta sem verður til í samspilinu.  Þær skoða í bók sinni fjölda myndabóka með söguþræði og hafa mestan áhuga á bókum sem skilja mikið eftir fyrir lesandann til túlkunar. Kim Fupz Aekeson, danskur myndlýsir og rithöfundur, segir gildi myndlýsinga felast í óvæntum árekstri: „Den store oplevelse var at lade teksten möde nogen fremmed, en anden vilje, modstand, kollision, et nyt blik på ordene". (Kim Fupz Aekeson, 2005:3) Þar er hann sammála Mariu Nikolajeva og Carole Scott sem kalla þennan árekstur texta og mynda 'counterpoint' eða kontrapunkt. Viðfangsefni þeirra í How Picturebooks Work er að greina þessa kontrapunkta sem oftast eru skáldlegir og margræðir þótt einstaka sinnum komi þeir til vegna skorts á samvinnu textahöfunda og myndlýsa.

Áður fyrr var hlutverk myndlýsa oft talið að auðga lesturinn, t.d. með áherslu á smáatriði, og gera lesendur að meiri þátttakendum. Nú er samspilið flóknara, texti og myndir vinna saman, óþarfi er að lýsa til dæmis klæðnaði í texta þar sem þær upplýsingar koma fram á mynd. Hefð er fyrir ákveðinni verkaskiptingu orðs og mynda, þannig að myndir lýsi persónum og umhverfi en sagan atburðarás og hugsunum. Aukið samstarf mynd- og textahöfunda hefur leitt til nýbreytni en samkvæmt Mariu Nikolajeva og Carole Scott eru þó flestar frumlegar myndabækurnar eftir einn höfund. (Nikolajeva og Scott. 2001:17)

Hér verða tekin dæmi um kontrapunkta Mariu Nikolajeva og Carole Scott og stiklað mjög á stóru:

I. Veruleikastig

Þeirrar tilhneigingar hefur gætt að skipta myndabókum í fantasíu- og raunsæisfrásagnir sem er alltof mikil einföldun. Í eldri myndabókum er algengt að fantastískir atburðir séu útskýrðir sem draumur, samanber Palli var einn í heiminum eða notað svokallað 'Mary Poppins sönnunargagn' sem segi að þeir hafi verið sannir eftir allt.

Í yngri myndabókum eru skil fantasíu og raunsæis oft óskýr. Stundum eru gefnar túlkunarvísbendingar í myndum eða texta, t.d. mynd af leikfangi eða titill sem bendir til að um draum sé að ræða, en í öðrum sögum svo sem sögunni Górilla eftir Anthony Browne eru mörk draums og veruleika óljós. Í þeirri bók er veruleikastigið kontrapunktur. Sagan Górillan er sálfræðileg og sjá má að áhugi stúlkunnar á górillum tengist þrá hennar eftir ástríkari föður. Hana dreymir draum þar sem leikfangagórillan hefur lifnað við og uppfyllir óskir hennar um ferð í dýragarðinn, bíó og fleira. Svo þegar stúlkan vaknar uppfyllir pabbinn draum hennar en myndin af honum með bananann í vasanum ruglar mörk draums og veruleika, er stelpan vöknuð eða dreymdi hana það?

Í Górillunni er mynd af stúlkunni með górillunni þar sem þau leiðast. Seinna er mynd af henni með pabba sínum sem speglar fyrri myndina án röklegrar útskýringar sögunnar, lesandinn verður sjálfur að túlka hvað er veruleiki og hvað draumur. Fyrri myndin er í ramma, smá munur á höfði górillunnar og pabbans og stúlkan heldur á górilluleikfanginu á seinni myndinni. Ramminn táknar fjarlægð og er eins konar gluggi inn í sálarlíf stúlkunnar. Seinni myndin sýnir allan skugga þeirra, fullkomnar og lokar þeirri fyrri, samanber setninguna: Hún var afar hamingjusöm" sem felur í sér lausn og endi (Nikolajeva og Scott. 2001:190-192).
Í ensku myndabókinni Come Away from the Water, Shirley eftir John Burningham er annað dæmi um kontrapunkt í veruleikastigi. Þar eru sagðar tvær sögur, önnur raunsæ og hin fantasía. Innan á bókakápu er mynd af sjóræningjakorti sem tengist fantasíufrásögninni en slík kort sem hluti af bókahönnun eru algengar túlkunarvísbendingar. Á vinstri opnum má sjá raunsæislegar myndir af foreldrunum og texta með rödd þeirra, hversdagslegu nöldri. Á hægri opnum er aftur á móti önnur saga, aðeins í myndum, af fantastískum ævintýrum Shirley. Æsispennandi saga Shirley i myndum skapar írónískt mótvægi við hina söguna, foreldrarnir eru litlausir, umhverfið óspennandi og textinn klisjukenndur.

II. Sögusvið

Þegar sögusvið mynda er skoðað má sjá ýmsa kontrapunkta. Myndlýsar beita oft umbreytingum á umhverfi til að túlka breytingar á hugarástandi persóna. Breytingarnar eru einnig oft súrrealískar eða sjónrænt ómögulegar, það er fjarvíddarlögmálum eða stærðarlögmálum raskað.

Til að skapa gagnrýnt sjónarhorn á hugmyndir er oft skipt um sögusvið, t.d. með því að láta þekkt ævintýri gerast í New York nútímans eða Asíu.

Myndlýsar leika sér stundum að því að láta sjálfstæðar sögur gerast í umhverfi atburða, t.d. með aukasöguþráðum eða dularfullum persónum eða atburðum. Sem dæmi um aukasöguþráð er saga af lítilli mús í Skilaboðaskjóðunni eftir Þorvald Þorsteinsson. Og í Veislunni í barnavagninum eftir Erlu Sigurðardóttur týnist budda og fylgst er með kettinum sem finnur budduna.

Úr Skilaboðaskjóðunni, músin er neðst í horninu hægra megin.

Úr Veislunni í barnavagninum, kötturinn er í horninu efst vinstra megin.

Myndir í römmum á veggjum eru enn annað bragð, stundum vísa þær í fræg verk eins og Mónu Lísu hér að neðan og höfða til fullorðinslesenda eða þær birta myndir sem 'trufla' og breyta merkingu aðalsögunnar. Í sögunni Snow woman eftir David Mckee er sögð saga um stúlku sem býr til snjókerlingu. Á yfirborðinu er jafnrétti og sátt milli barna af gagnstæðu kyni en myndirnar á veggjunum eru órólegar, lýsa erfiðum samskiptum kynjanna, samanber myndirnar hér að neðan sem sýna fólk að rífast og konu á stultum sem maðurinn styður við:

Górillan eftir Browne.

Snow woman eftir Daved Mckee.

Að lokum má nefna texta í umhverfinu sem kontrapunkta sögusviðs. Áslaug Jónsdóttir leikur sér að því í sögunni Eggið að láta texta á myndunum tengjast eggjum og kjúklingum. Strætisvagninn er að framan merktur leið 3, Eggholt - Hreiðurás. Og auglýsingarnar á hlið vagnsins um bleika kjúlla og bleik egg eru ádeila á hversu ónáttúrulegt líf okkar er, maturinn breyttur og allt mengað.

Eggið eftir Áslaugu Jónsdóttur.

III. Persónusköpun

Myndabækur snúast oft að mestu um atburði og frekar lítið er um kontrapunkta í persónusköpun. Sem dæmi um einfaldar persónur í myndabókum má nefna dýrapersónur, hlutapersónur svo sem lestir, fyrirbærapersónur svo sem múmínálfa eða persónur sem er aðeins lýst í tengslum við aðra, til dæmis í sögu um barn og móður. Í nýrri myndabókum er persónusköpun oft flóknari, kynferði skiptir máli, og miðlað er erfiðum tilfinningum svo sem reiði og ótta og er Engill í vesturbænum íslenskt dæmi um huglæga sögu með flókinni persónusköpun.

Persónusköpunin í Never Satisfied eftir Fulvio Testa er mjög grunn en þar má sjá kontrapunkt í leik höfundar með væntingar lesanda og hugmyndina um hið einstaka, heildstæða sjálf. Aðalpersónur sögunnar eru nafnlausar, líkar hvor annarri og svipað klæddar. Ofan á það dúkka upp dularfullar aukapersónur og sumar þeirra líkjast drengjunum í útliti. Aðalpersónurnar veita þeim enga athygli og þær eru ekkert frekar útskýrðar.

Never Satisfied eftir Fulvio Testa.

IV. Frásagnaraðferð

Í myndabókum er sögumaður, bæði í orðum og mynd, oftast fullorðinn og 'alvitur', segir frá í þriðju persónu og horfir yfir sviðið. Fyrstu persónu frásagnir eru þó að verða algengari. Algengt er að misræmi ríki í slíkum sögum og myndirnar miðli 3. persónu sjónarhorni. Í þeim tilfellum er um kontrapunkt í frásagnaraðferð að ræða. 

Ákveðin klemma fylgir 1. persónu frásögn. Ef mynd fylgdi sjónarhorninu sæjum við aldrei sögumann en hefðin er sú að við sjáum hann. Til að leysa þetta er sjónarhornið oft staðsett fyrir aftan sögumann og við horfum með honum, t.d. upp á fullorðna. Eins eru speglar oft notaðir til að sýna persónuna. Í Engli í vesturbænum er frásögnin í 1. persónu en myndirnar ýmist í 1. eða 3. persónu, stundum sést Askur en stundum sjáum við aðeins hans sýn, líkt og þegar Snæfellsjökull situr við eldhúsborðið.

Í bókinni Lily takes a walk eftir Satoshi Kitamura er leikið með sjónarhorn. Textinn er mjög hversdagsleg og hlutlæg 3. persónu frásögn sem miðlar upplifun Lily. Hún er á göngu og fullyrt í textanum að hún sé ekki hrædd þar sem hundurinn er með henni. Myndirnar eru einnig í 3. persónu, Lily og hundurinn eru sýnd utanfrá en myndirnar miðla einnig huglægu sjónarhorni hundsins sem er lafhræddur. Í textanum kemur ekkert fram um hræðsluna og Lily sjálf er algerlega ómeðvituð (en oftast eru það fullorðnir í barnabókum sem eru svona blindir). Þótt hræðsla hundsins sé of mikil er ótti hans ekki ástæðulaus. Áhyggjuleysi Lily og foreldranna er líka ógnvekjandi, hvað er lítil stelpa að þvælast eftirlitslaus þegar dimma tekur?

Lily takes a walk eftir Satoshi Kitamura.

 
 
Í bókinni Sagan af undirfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar eftir Margréti Tryggvadóttur og Halldór Baldursson er frásögnin hefðbundið prinsessuævintýri. Myndirnar aftur á móti eru frumlegar, gróteskar og meðvitað í algjörri andstæðu við söguna. Niðurstaðan er sú að myndirnar lífga upp á textann og varpa írónísku ljósi á t.d. úreltar hugmyndir hans um kynhlutverk.

Opna úr Sögunni af undirfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar eftir Margréti Tryggvadóttur og Halldór Baldursson.

 

Sagan af undirfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar er dæmi um metabókmenntir, sögur sem eru meðvitaðar um sjálfar sig sem sögur. Sjálfsmeðvitund á sér langa sögu í barnabókum, t.d. þegar lesandinn er ávarpaður beint og í nýrri bókum má sjá merki um póstmódernískan leik, t.d. þegar myndlýsar vísa í önnur verk, eigin eða annarra.

V. Tími og hreyfing

Myndabækur gerast yfirleitt á stuttum tíma með áherslu á atburði og orsakasamhengi. Myndir gefa yfirlit yfir sviðið og geta sýnt marga atburði eða persónur á sama tíma. Til að tákna tíma eru oft notaðar klukkur, dagatöl, sólarupprás, sólsetur eða árstíðarskipti með röð mynda. Lítið er um endurlit eða framtíðarleiftur í myndabókum en ef slíkt er þá er það oftast aðgreint með ramma, litabreytingu, eða hugsanablöðru.

Myndir eru statískar, kyrrar, en texti flæðandi. Milli formanna tveggja er stöðug togstreita. Textinn hvetur lesandann til að halda áfram en myndirnar að staldra við. Hver opna endar á smáatriði, í máli eða mynd, „pageturner“, sem hvetur lesandann til að fletta. Þannig er lesandinn virkur og lætur hluti gerast.

Hreyfing er táknuð með mismunandi grafískum kóðum, mörgum frá myndasögum og ljósmyndum, svo sem hreyfilínum, „blurri" og breytingu sjónarhorns. Persónur eru sýndar í miðju hoppi og lesandinn veit að um hreyfingu er að ræða út frá fyrri reynslu af slíkum myndum. Raðbirting er vinsælasta bragðið til að sýna hreyfingu, þá er röð mynda látin sýna breytingu, stundum með línum eða örvum milli myndanna.  Annað bragð er keðja mynda, t.d. drengur við tré og drengur upp í tré, búinn að klifra upp.

Hefð er fyrir ákveðnum leshætti, frá vinstri til hægri, sikk sakk á síðu, en sumar bækur leika sér með hefðir og láta lesendur t.d. lesa myndir andsælis.

Kontrapunktar í tíma og hreyfingu felast oft í misræmi milli mynda og texta sem tjáir tímaskynjun barns. Hjá Max í Where the Wild Things Are, er um tvenns konar tíma að ræða, í textanum er talað um vikur og næstum ár og á myndunum má sjá nýjan mána í byrjun og fullan í restina sem táknar tímalengdina. Í lokin kemur fram að maturinn er enn heitur þannig að varla hafa meira en 10 mínútur liðið í raun sem er þriðja útgáfan. Eins má taka fullyrðingar stúlkunnar í Górillunni eftir Anthony Browne með fyrirvara en hún notar orðin ávallt og aldrei, pabbinn er ávallt" of þreyttur og þau gerðualdrei" neitt saman.

Górillan eftir Anthony Browne.

 

Skortur á þýðingum

Maria Nikolajeva og Carole Scott skoða mjög ítarlega samspil mynda og texta, að hvaða leyti formin eru ólík og hvernig þau virka saman. Í bókinni How Picturebooks Work taka þær dæmi um fjölda myndabóka eftir fræga höfunda sem eiga það sameiginlegt að vera margræðar og túlka flókinn veruleika. Þýðingar eru mikilvægur þáttur bókmenntasögunnar og athyglisvert er hversu fáar þessara bóka hafa verið þýddar á íslensku og af þeim fáu sem hafa verið þýddar hversu margar eru nú ófáanlegar.

 
Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is