Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Saga myndlýsinga í barnabókum

Myndabækur

Dimmalimm verðlaunin

Flokkun

Saga

Hugmyndafræði

Lyklar Mobiusar

Samspil orða og mynda

Tákn

Bókahönnun

Gott kvöld

Sýnishorn íslenskar

Sýnishorn erlendar

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Upphaf myndabóka í Evrópu

Hugtakið barnabókmenntir verður til á Vesturlöndum um 1750 þegar hugmyndir manna um börn breyttust og farið var að skoða þarfir þeirra. Börn voru áður fyrr virk í samfélaginu en með borgarmyndun og iðnbyltingu verða þau sérstakur markhópur. Fyrir þennan tíma hafði ekki verið greint milli barnabóka og bóka fyrir fullorðna en þjóðsögur, dæmisögur og ævintýralegar frásagnir úr Biblíunni og epískum kvæðum höfðu alla tíð notið sérstakra vinsælda hjá börnum.

Erfitt er að fullyrða um upphaf barnabóka. Á 13. öld handskrifuðu munkar kennslubækur fyrir börn sem notaðar voru í klaustrum í Evrópu og á 15. öld með tilkomu prenttækninnar voru gefnar út svokallaðar kurteisisbókmenntir fyrir heldri manna börn um mannasiði. Fyrsta myndabókin er talin vera bókin Orbis Pictus eða Heimurinn í myndum eftir John Amos Comenius sem kom út í Tékklandi árið 1658 og var kennslubók í latínu, vinsæl í tvær aldir. Comenius var uppeldisfrömuður og markmið hans með myndunum var að lífga upp á kennsluna.

Upplýsingastefna 18. aldar markaði þáttaskil í útgáfu barnabóka. Læsi jókst og aðaláherslan var á fræðandi og uppbyggilegt efni sem jafnframt átti að vera skemmtilegt og myndskreytt. Upphaf barnabóka í þeirri mynd sem við þekkjum er venjulega miðað við 1744 og ensku bókina A Little Pretty Pocket Book eftir Newbury. Hún innihélt safn söngva og sagna með siðferðislegum boðskap. Myndirnar í bókinni voru grófar tréristur sem tengdust efninu en algengt var í bókum sem á eftir komu að notaðar væru til skrauts einhverjar tréristur sem til voru án tillits til textans.

Í Þýskalandi á 18. öld var í fyrsta sinn þekktur myndlistarmaður, Daniel Nikulaus Chodowiecki, fenginn til að myndskreyta alfræðibók fyrir börn og unglinga. Síðar á öldinni gaf Þjóðverjinn Friederich Justin Bentgut út myndabækur fyrir börn og árið 1865 kom út hin fræga prakkarasaga Max og Mórits í myndum og ljóðum eftir Wilhelm Busch.

Á 19. öld gaf Frakkinn Grandville út nokkar myndabækur um dýr og blóm með mannlega eiginleika og af öðrum frægum bókum má nefna siðbótasögurnar í Der Struwwelpeter eftir Þjóðverjann Heinrich Hoffmann sem kom út árið 1844 og A Book of Nonsense, mun nútímalegri barnabók í absúrd stíl eftir Bretann Edward Lear frá 1846.

Rómantíska stefnan var blómaskeið barnabóka með áherslu á sakleysi barna og dýrkun æskunnar. Grimmsævintýri komu út í upphafi 19. aldar og frumsamin ævintýri H.C. Andersen um 1850. Góðir höfundar og myndlýsar sneru sér í auknum mæli að því að semja efni fyrir börn. Miklar framfarir í prentun gerðu það að verkum að hægt var að prenta fallegar bækur á viðráðanlegu verði og gróska í tímaritaútgáfu var mikil.

Bretar voru mjög framarlega á sviði barnabóka og sem dæmi um fræga myndlýsa í lok 19. aldar má nefna Randhoph Caldecott, Walter Crane og Kate Greenway. Öll unnu þau markvisst með samspil texta og myndar. Þau voru með fleiri myndir í bókum sínum en áður hafði tíðkast og þar af margar í lit. Bókahönnun skipaði sífellt stærri sess og má nefna prentarann Edmund Evans í því sambandi en hann vann með Crane, Caldecott og fleirum og setti myndir og texta upp sem heild sem var nýjung á þeim tíma.

Lísa í Undralandi kom út í Englandi árið 1865 með myndum Tenniel og fyrsta bók Beatrix Potter kom út 1902, The Tale of Peter Rabbit. Potter segir og myndlýsir söguna frá sjónarhorni lítilla dýra, leggur mikla rækt við smáatriði og hannaði bókina í litlu broti, ætluðu litlum höndum. Af annarra þjóða áhrifamiklum myndlýsum frá upphafi 20. aldar má nefna Frakkana Maurice Boutet de Monvel og Jean de Brunhoff,  Danann Kay Nielsen, Svíann Elsu Beskow og Bandaríkjamanninn Dr. Theodor Seuss Geisel.

Á 20. öld fóru sífellt fleiri bókaútgáfur að sinna og jafnvel sérhæfa sig í barnabókum, sérstakar barnabókadeildir urðu til á bókasöfnum og í bókabúðum og um miðja öldina var farið að selja barnabækur í matvörubúðum og vöruhúsum.

Caldecott verðlaunin hafa verið veitt frá 1938 fyrir bestu amerísku myndabókina og Kate Greenway verðlaunin hafa verið veitt fyrir bestu bresku myndabókina frá 1956. Alþjóðlegu barnabókasamtökin Ibby voru stofnuð í Sviss 1953 og þau hafa veitt H.C. Andersen verðlaunin fyrir myndlýsingar frá 1966 sem talin eru virtustu verðlaun sem myndlýsi geti hlotnast.


Upphaf myndabóka á Íslandi

Fyrsta myndskreytta barnabókin sem kom út á Íslandi 1853 hét Myndabók handa börnum og var tekin saman af Agli Jónssyni. Í henni eru myndir eftir erlenda listamenn. Ekki er vitað með vissu hvenær fyrsta íslenska myndabókin í nútímaskilningi kom út, það er að segja með myndum sérstaklega unnum fyrir bókina. Jóhannes Kjarval teiknaði myndir við Engilbörnin eftir Sigurbjörn Sveinsson 1910 og Guðmundur Thorsteinsson, Muggur, myndskreytti Þulur Theódóru Thoroddsen frá 1916 og Baulaðu nú Búkolla mín sem kom út 1951.

Af öðrum myndlistarmönnum af eldri kynslóð má helst nefna Tryggva Magnússon og Halldór Pétursson en þeir voru mjög afkastamiklir. Tryggvi var eini auglýsingateiknarinn á Íslandi lengi vel og mjög þekktur fyrir skopmyndir sínar í tímaritinu Spegli. Segja má að Halldór taki við af Tryggva og myndir hans prýða margar bækur þekktustu íslensku höfundanna frá því um miðja síðustu öld.
Ragnheiður Gestsdóttir telur í greininni Myndir í barnabókum á Íslandi" að natúralískur, frekar einfaldur teiknistíll þeirra tveggja sem einkennist af þjóðlegri rómantík hafi mótað mjög smekk Íslendinga á myndlýsingum og vegna áhrifa þeirra og smæðar markaðarins sé fjölbreytni íslenskra myndlýsinga minni en ella. (Ragnheiður Gestsdóttir, 1995:21).


Fjölbreyttari flóra íslenskra myndabóka

Barbara Árnason og Nína Tryggvadóttir ollu ákveðnum straumhvörfum í barnabókum og bókahönnun. Stíll þeirra tvegjja er ólíkur en mjög agaður. Myndir Barböru eru mjög fínlegar, oft tréristur, en myndir Nínu eru flestar dúkristur sem einkennast af hreinum línum og abstrakt leik með form. Bækur Nínu komu út á árunum 1943 til 1966. Hún var fyrsti höfundurinn fyrir utan Mugg sem samdi bæði myndir og texta en myndlýsti líka verk annarra.

Bók Halldórs Péturssonar og Njarðar P. Njarðvík Helgi skoðar heiminn frá 1976 er líklegast þekktasta verk Halldórs og talin marka upphaf blómaskeiðs vandaðra myndabóka hérlendis. Margrét Tryggvadóttir segir í greininni Sköpun hefðar":

Í kjölfar þeirrar bókar varð mikil vakning í gerð íslenskra myndabóka, enda höfðu ýmsir miklar áhyggjur af því að litskrúðugar erlendar bækur myndu kaffæra íslenska útgáfu [...] Myndir í barnabókum fengu ekki einungis aukið vægi í þeim bókum sem fylgdu í kjölfarið, heldur urðu þær einnig íslenskari. (Margrét Tryggvadóttir, 1998, blstal vantar)

Sem dæmi um séríslensk einkenni myndabóka nefnir Margrét myndir Sigrúnar Eldjárn þar sem sveitin er á húmorískan hátt tákngerð með íslenska burstabænum og Reykjavík með Hallgrímsturni. Karlar og börn í bókum Sigrúnar séu einnig oft í lopapeysum og konur eru í íslenskum búningi eða allavega með skotthúfu. (Margrét Tryggvadóttir, 1998:blstal vantar).

Barbara Árnason var ensk og það er athyglisvert hversu margir erlendir listamenn hafa auðgað myndabókaflóruna og má þar nefna Brian Pilkington og Önnu Cynthia Leplar. Þrátt fyrir erlendan uppruna eru myndir þessara listamanna oft mjög íslenskar, Barbara gerði mjög fallegar myndir af íslensku landslagi og dýrum, Anna Leplar hefur unnið með íslenskar þjóðsögur og enginn hefur sinnt tröllunum jafn vel og Brian Pilkington.

Heimurinn í myndum eftir John Amos Comenius frá 1658.

Úr A Little Pretty Pocket Book eftir Newbury frá 1744.

Grandville: La Fontaine 1838.

Henrich Hoffmann: Der Struwwelpeter 1853.
Wilhelm Busch: Max og Mórits 1885.

Úr Book of Nonesense eftir Edward Lear frá 1846.

Randolph Caldecott. The diverting history of John Gilpin frá 1878.

Walter Crane: Beauty and the Beast frá 1874, Edmund Evans skar út og prentaði.

Fyrsta bók Kate Greenway: Under the Window frá 1879.

John Tenniel: Lísa í Undralandi 1866.

Maurice Boutet de Monvel: Jeanne d´Arc frá 1896.

Beatrix Potter: Ævintýri Péturs kanínu útgefin 1902 í Englandi.

Elsa Beskow: Children of the Forest frá 1910.

Kaj Nilsen: East of the Sun West of the Moon 1914, útgefin í Englandi.

Jean De Brunhoff: Sagan um Babar frá 1933.

Dr. Seuss: Kötturinn með höttinn 1954.
Erlend mynd úr fyrstu myndskreyttu bókinni sem gefin var út á Íslandi, Myndabók handa börnum eftir Egil Jónsson, 1853.
 
Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is