Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Lyklar Mobiusar

Myndabækur

Dimmalimm verðlaunin

Flokkun

Saga

Hugmyndafræði

Lyklar Mobiusar

Samspil orða og mynda

Tákn

Bókahönnun

Gott kvöld

Sýnishorn íslenskar

Sýnishorn
erlendar

Heimildir

Verkefni og ítarefni
William Moebius setti fram kenningar árið 1989 um greiningu myndabóka í 7 lykla. Margrét Tryggvadóttir útskýrir lykla Mobebiusar í greininni Setið í kjöltunni" og Kristín Ragna Gunnarsdóttir beitir þeim á söguna Engla í Vesturbænum í grein sinni Vængir hugans". Lyklarnir eru verkfæri til að greina myndir en að sjálfsögðu er merkingin háð samhengi og alls ekki víst að þeir eigi alltaf við.

1. Staðsetning

Lykill staðsetningar fjallar um hvar persónur eru staddar á síðu eða opnu:

Ofarlega eða miðjuð: bendir til jákvæðrar stöðu, ánægju og sterkrar sjálfsmyndar. Reyndar getur staðsetning ofarlega stundum táknað ofdramb, að persónan hreyki sér hátt.

Neðarlega eða jöðruð: persónan er í slæmri stöðu, sjálfsmat getur verið lágt, hún er utanveltu, leið eða dauf.

Vinstra megin á opnu eða síðu: persónan er nokkuð örugg í byrjun.

Hægra megin: hér er persónan óöruggari, á leið í óvissuna, yfir á næstu opnu.

Skálínur skapa spennu en lárétt lína táknar jafnvægi.

Guðrún Svava Svavarsdóttir: Búrið. Persónan er jöðruð ofarlega og lítil. Skálínan skapar spennu. Stelling stúlkunnar bendir til reiði en líka einsemdar.

Brian Pilkington: Ástarsaga úr fjöllunum. Litlir tröllastrákar neðarlega á síðu, ráðvilltir, horfa í allar áttir. Móðirin stór, fyllir út í myndina, hægra megin að vísu en horfir til vinstri, traust og örugg.

Áslaug Jónsdóttir: Eggið. Eggið er pínulítið og rennur niður stigann. Fyrir neðan er kötturinn. Skálínur skapa spennu og rauði liturinn efst hægra megin tengist hættu og kjafti kattarins.

Áslaug Jónsdóttir: Nei, sagði litla skrímslið. Hér er lárétt lína og jafnvægi. Skrímslin eru vinir og sitja hægra megin á síðustu opnunni.

2. Stærð

Stærð söguhetju hefur mikið að segja um sjálfsmat hennar. Ef persónan er lítil en stækkar er það merki um þroska og aukið sjálfstraust. Hér getur stærð líka táknað dramb.
Áslaug Jónsdóttir: Nei, sagði litla skrímslið. Gífurlegur stærðarmunur. Stóra skrímslið hægra megin, öruggari staða. Litla skrímslið situr en skuggi þess leiðir söguna áfram.

3. Endurtekning

Með endurtekningu er átt við ef sama persónan birtist oftar en einu sinni á sömu mynd. Það bendir til að hún ráði ekki alveg við stöðu mála. Endurtekningarnar tengjast oft stærð, oft lýsa smækkandi endurtekningar erfiðleikunum.

4. Sjónarhorn

Sjónarhorn snýr að umhverfi. Ef sjóndeildarhringur hverfur táknar það yfirleitt óöruggi og yfirvofandi hættu. Sjónarhornið felur í sér hvernig horft er. Að horfa niður á eða upp til persónu felur í sér valdamun. Eins er persóna í tvívíðu rými öruggari en í þrívíðu. Þrívíddin táknar innilokun og dýpt.
 
Nygren: Come Into My Night, Come Into My Dream.
Barnið horfir upp á hina fullorðnu sem standa ógnandi fyrir framan það
.

 

Wikland: Elsku Míó minn. Einmannaleiki drengsins er undirstrikaður með því að horfa á hann ofan frá inni í herberginu.
5. Rammi

Stundum virðast rammi vera skraut en oftast er hannr notaður með markvissum hætti. Stærð hans, lögun og línugerð skiptir máli. Með rammanum er ákveðin fjarlægð sköpuð, síðan má sjá hvernig persónur sprengja rammann, fara út fyrir hann eða að ramminn víkkar eða hverfur. Stundum er lítill rammi inn í sögunni og táknar hann innsýn í annan heim.

Brian Pilkington: Mánasteinar í vasanum. Drekinn sprengir rammann, fantasíuheimurinn rennur saman við veruleikann.

6. Línur

Teikni- eða myndstíllinn, hvort línur eru breiðar, grannar, hvassar, mjúkar, risskenndar, lausar eða ákveðnar hefur mikið af segja. Hreyfing er oft sýnd með lausari línu, hvassar línur gefa frekar til kynna hættu og breiðar línur tákna leti eða öryggi. Mikilvægt er að stíllinn sé í samræmi við tón textans, ef textinn er yfirvegaður og hægur er eðlilegt að myndirnar séu það líka. Tilbrigði við ýmsa teiknistíla miðla mismunandi andrúmslofti og umskiptum í sögunni. Í Englum í Vesturbænum miðlar fjölbreyttur myndastíllinn huglægu örsöguforminu og ólíkum vangaveltum aðalpersónunnar, Asks. Skissustíllinn er t.d. léttur og gefur ýmislegt í skyn.

Halla Sólveig: Þorgeirsdóttir. Tvær myndir úr Englum í vesturbænum gerðar með blandaðri tækni. Bakgrunnur málaður með grófum pensilförum, skissurnar eru huglægari og auk þess er klippitækni beitt.

Halldór Baldursson: Tvær myndir úr bókinni Dýr en Halldór leikur sér með mismunandi teiknistíla innan sömu bókar.

7. Litur

Litir bera í sér mikla merkingu, tilfinningatengda sem jafnframt er menningarbundin.

Heitir litir (t.d. rauður/gulur) miðla vellíðan, vináttu, ást og gleði.
Kaldir litir (t.d. bláir) geta staðið fyir óöryggi og vanlíðan.

Litir eru oft notaðir til að tengja hliðstæða hluti saman og skapa andrúmsloft, t.d. skuggsýnt eða bjart. Í Skilaboðaskjóðu Þorvaldar má sjá á sömu opnu umskipti frá hlýju og öryggi til ótta og einsemdar.

Þorvaldur Þorsteinsson: Skilaboðaskjóðan. Gulur litur táknar hlýju og öryggi. Putti er með Möddumömmu hægra megin. Blái liturinn er kaldur og Putti er einn í herberginu, út í horni með ævintýramynd af Rauðhettu fyrir ofan rúmið sem enn fremur vekur ótta. Síðar þegar Maddamamma uppgötvar hvarf Putta hefur myndin á veggnum breyst, Rauðhetta er farin að tína blóm og úlfurinn nálgast.
 
Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is