Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Ótti og langanir - um Gott kvöld Áslaugar Jónsdóttur

Myndabækur

Dimmalimm verðlaunin

Flokkun

Saga

Hugmyndafræði

Lyklar Mobiusar

Samspil orða og mynda

Tákn

Bókahönnun

Gott kvöld

Sýnishorn íslenskar

Sýnishorn erlendar

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Hér er fjallað um myndabókina Gott kvöld eftir Áslaugu Jónsdóttur sem Mál og menning gaf út 2005 og Áslaug hlaut Dimmalimm verðlaunin fyrir sama ár.

Áslaug er höfundar texta, mynda og útlits og spennandi er að skoða hvernig merking bókarinnar verður til í samspili allra þessara þátta.

Bókarkápa

 

Á bókarkápunni er fyrir miðju er lítill drengur á náttfötunum með bangsann sinn. Strákurinn brosir óttablöndnu brosi sem er ekki skrítið því að honum sækja skuggaverur úr öllum áttum. Hann heldur fast um bangsann sem er reyndar skelfingu lostinn. Bangsinn táknar innra sjálfs drengsins og sagan lýsir átökum drengins við eigin ímyndun.

Letrið í titlinum er draugalegt, mjóir, ójafnir stafir með löngu bili á milli. Áslaug er einmitt fræg fyrir mjög markvissa notkun leturs, sbr. Söguna af bláa hnettinum, og í sögunni er stórt og feitt letur notað til að tjá óttann við verurnar og svo er áfram notað stórt og feitt letur, en þó aðeins minna, til að tjá hugrekkið þegar skuggaverunum er einni af annarri boðið gott kvöld.

Innan á bókarkápu

 

Innan á bókarkápunni að framanverðu má sjá svartar skuggamyndir. Stóra klukkan er tíu mínútur í átta og pabbinn er á leiðinni út, hann kveður strákinn og á látbragði stráksins má sjá að hann er stjarfur af ótta.

Titilsíða

 

Á titilsíðunni er skuggamynd af drengnum aleinum með bangsann sinn og þótt hann sé baðaður hlýju gulu ljósi er kaldur blár litur í kring og tilfinning tómarúms og ótta ríkjandi.

Innanverð bókarkápan að aftanverðu

Innanverð bókarkápan að aftanverðu tengist þeirri að framanverðu. Hér eru foreldrarnir komnir heim og við sjáum að atburðir sögunnar hafa átt sér stað á 10 mínútum. Drengurinn er búinn að leggja heimilið í rúst. Stuttur tíminn stangast á við innri skynjun drengsins samanber opnu í sögunni þar sem allar klukkur virka stopp og aðeins tvær mínútur eru liðnar frá því pabbinn fór.

Þessi frásögn í myndum við upphaf og lok bókar skapar mótvægi við sögu drengsins. Sjónarhornið er hér fjarlægara og raunsærra en vegna sögunnar sem á milli er höfum við samúð með drengnum, við vitum meira en foreldrarnir, sem líkt og fullorðnir almennt í barnabókum, skilja ekki neitt í neinu. Þeim var nær að skilja barnið sitt eftir eitt heima!

Fyrsta opnan

 

Hér byrjar textinn, þótt sagan sjálf sé komin af stað, á frásögn drengsins í 1. persónu og  samtali hans við bangsann sem í raun er innra eintal. Bangsinn er lafhræddur og ásóttur af ýmsum gestum sem eru Hungurvofan, Tímaþjófurinn, Hræðslupúkinn, Hávaðaseggurinn, Ólátabelgurinn og Öskurapinn, Hrekkjasvínið, Óþekktarormarnir, Vælukjóinn, Leiðindaskjóðan, Fýlupokinn, Letihaugurinn, Frekjuhundurinn og Svefnpurkan. Heiti gestanna eru orð sem við þekkjum en sem líkingar eru þau í daglegu tali löngu hætt að virka. Áslaug lífgar orðin við með því að myndgera bókstaflega merkingu þeirra auk þess sem hún gefur mörgum þeirra nýtt samhengi svo sem Hungurvofunni sem til þessa hefur ekki beinlínis tengst löngun í mjólk og kex. Gestirnir tákna ýmsar hvatir og tilfinningar innra með drengnum, hann er því að kljást við eigin skrímsli en með því að bjóða þeim gott kvöld viðurkennir hann þau og um leið þá staðreynd að hann er ekki fullkominn.

Hungurvofan (einhver hefur orðið svangur við lesturinn og klístrað út bókasafnsbókina sem myndin er skönnuð úr, sjá kexið og melónuna).

Drengurinn yfirfærir ótta sinn á bangsann og sækir styrk í að róa hann, enda búinn að lofa pabbanum að vera duglegur. Bangsinn aftur á móti hefur ekki lofað neinu og strákurinn notar hann og gestina sem afsökun fyrir óhlýðni, reiði og leti. Það voru þeir sem drösluðu til!

Gefið er í skyn í textanum að gestirnir séu ímyndun bangsans enda talar hann alltaf um gestina  í viðtengingarhætti: Hvað ef Hungurvofan kemur í heimsókn? 

Á myndunum er aftur á móti enginn efi, gestirnir eru mættir, ljóslifandi, jafnraunverulegir og foreldrarnir. Bangsinn er sömuleiðis lifandi og sterkar myndirnar ýta allri rökvísi til hliðar. Myndin er orðinu sterkari. Hver gestur er eins og þraut sem strákurinn þarf að sigrast á, með því að hafa ofan af fyrir gestunum fyllir hann upp í tómarúm biðarinnar.

Bangsinn er yngri og dýrslegri hlið drengsins, tæki til að skoða óttann utanfrá og tala um hann. Strákurinn sýnir hugrekki og tekur á móti gestunum af kurteisi og jafnvel góðvild, þótt stundum sé það erfitt eins og myndirnar sýna, t.d. þegar ógeðfellt hrekkjasvínið á í hlut.

Hrekkjasvínið

Augnaráð gegnir miklu hlutverki í sögunni, drengurinn snýr oftast fram en horfir til hliðar, með kvíðafullu hugrekki, á gesti sína sem hann þó er í öruggri fjarlægð frá. Bangsinn aftur á móti hlustar eftir hverju hljóði og horfir skelfingu lostinn beint á okkur, á bréfalúguna, út um gluggann eða á gestina. Hann sveiflast milli ótta og leiðinda, starir líka á klukkuna eða út í loftið. Og þegar drengurinn er sofnaður í lokin er bangsinn ennþá glaðvakandi þótt hann hafi borið sig vel eftir á.

Til hægri á fyrstu opnu

Í byrjun sögunnar kemur fram að bangsinn er reiður og vill ekki lesa bók. Á gólfinu liggur bók með mynd af bangsa. Er þetta kannski bókin Gott kvöld sem við erum að lesa? Við nánari skoðun sést að bókin á gólfinu er gamaldags myndabók með miklum texta og krúttlegri mynd í ramma til hliðar. Í þannig bókum eru myndir oft meira til skrauts. Í bókinni Gott kvöld er unnið á markvissan hátt með myndabókarformið og möguleika þess. Útkoman er bráðfyndin. Bangsinn í okkar sögu er ekki sætt dót heldur alvöru persóna. Drengurinn er sömuleiðis ólíkur fyrirmyndarbarni barnabókanna. Þegar taki foreldra sleppir er fjandinn laus, barnið er hrætt og óhlýðið í senn og lesandinn, stór eða smár, kannast við flókið tilfinningaspilið.

 
Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is