Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Flokkun myndabóka

Myndabækur

Dimmalimm verðlaunin

Flokkun

Saga

Hugmyndafræði

Lyklar Mobiusar

Samspil orða og mynda

Tákn

Bókahönnun

Gott kvöld

Sýnishorn íslenskar

Sýnishorn erlendar

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Til að gera sér grein fyrir fjölbreytni myndabóka er mikilvægt að skipta þeim í flokka. Hér er stuðst við flokkun Áslaugar Jónsdóttur úr grein hennar Yfir eyðimörkina á merinni Myndlýsingu". Flokkarnir skarast oft en ágætt er að hafa þá til viðmiðunar. (Áslaug Jónsdóttir, 2001:6)

1. Myndasafnið
Texti er lítill eða enginn og myndirnar tengjast en ekki er um söguþráð að ræða. Þetta á við stafrófsbækur, bendibækur og fleira. Lítið framboð er af íslenskum bendibókum. Samkvæmt Margréti Tryggvadóttur voru þær aðeins 3 árið 1999, Íslensku húsdýrin með teikningum Halldórs Péturssonar, nýleg með ljósmyndum af íslenskum húsdýrum, auk Myndabókar Lilju og Dóra frá 1949 eftir Stefán Jónsson arkitekt. (Margrét Tryggvadóttir 1999:119)

2. Textalausa sögubókin
Saga er sögð í myndum, án texta, eða fræðandi upplýsingum er raðað í línulega frásögn í myndum. Dæmi um slíka bók er Vindurinn eftir Monique Felix. Gullfjöðrin eftir Áslaugu Jónsdóttur er að hluta til textalaus þar sem myndirnar eru sér og textinn fyrir aftan.

3. Mynda- og sögubókin
Þessum flokki tilheyra flestar myndabækur. Myndir og texti standa jafnfætis, mynda heild, og merking bókarinnar verður til í samspilinu þar á milli. Eggið eftir Áslaugu Jónsdóttur má nefna sem dæmi. Maria Nikolajeva og Carole Scott segja bækur í þessum flokki ýmist vera samhverfar myndabækur þar sem myndir og orð segja sömu söguna, uppbótarmyndabækur þar sem myndir og orð fylla í eyður hvors annars eða margræðar myndabækur þar sem myndir og orð skilja eftir eyður, viljandi eða óviljandi sem kalla á túlkun. (Nikolajeva og Scott 2003:11-17)

4. Myndlýsta bókin
Þessar bækur eru ætlaðar eldri börnum. Textinn er ráðandi og getur staðið án mynda. Myndirnar eru tiltölulegar fáar en samt mikilvægar, túlka persónur og atburði. Í bók Sigrúnar Eldjárn Týndu augun er textinn ráðandi en myndirnar mikilvægur hluti sögunnar, útlits og umgjarðar.

5. Leikfangabókin
Leikfangabækur eru myndabækur með flipum, götum, tökkum, hljóðum, loðnar, úr gúmmí eða í flóknu broti. Leikfangabækur eru mjög dýrar í prentun og fáar hafa komið út hérlendis en þó má nefna að hin fræga bók A Very Hungry Catepillar eftir Eric Carle kom út árið 2004 sem Gráðuga lirfan í þýðingu Sigþrúðar Gunnarsdóttur hjá Máli og menningu. Auk þess kom út þýðing Andrésar Indriðasonar á Hounted House eftir Jan Pienkowski sem Draugaspaug hjá Erni og Örlygi árið 1980 en erfitt er að nálgast hana í dag enda mjög flókinn pappírsskúlptúr á ferð og viðkvæmur í meðförum. Geoff Moss tekur þá bók sem dæmi um póstmódernisma í myndabókum. Skyggnst er inn í ýmis skúmaskot hússins og í stað heildarhugsunar veki bókin athygli á því sem ekki sést, óhugnaðnum bak við hversdagslegt yfirborðið. (Moss 1993:53)

Halldór Pétursson: Íslensku húsdýrin

 

Monique Felix: Vindurinn

 

Áslaug Jónsdóttir: Eggið

 

Sigrún Eldjárn:
Týndu augun


 

Amerísk leikfangabók

 

Gráðuga lirfan eftir Eric Carle. Í bókinni eru holur þar sem lirfan hefur étið sig í gegnum hitt og þetta.

Úr Hounted House eftir Jan Pienkowski: Eldhús og baðherbergi. Ýmislegt leynist í skápum og skúmaskotum hússins, krókódíll í baðinu, kolkrabbi í vaskinum og köttur í klósettinu. Og ekki hefur allt verið opnað enn, svo sem efri eldhússkáparnir. Þegar sumum síðum er flett heyrast auk þess draugaleg ískurhljóð.
 
Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is