Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Dimmalimm verðlaunin

Myndabækur

Dimmalimm verðlaunin

Flokkun

Saga

Hugmyndafræði

Lyklar Mobiusar

Samspil orða og mynda

Tákn

Bókahönnun

Gott kvöld

Sýnishorn íslenskar

Sýnishorn
erlendar

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Fagleg umræða um myndlýsingar hefur að mestu farið fram í tímaritinu Börnum og menningu sem hefur frá 2001 verið gefið út af Ibby samtökunum á Íslandi. Samtökin á Norðurlöndum skiptast einnig á árlega að gefa út Nordisk blad og var t.d. 2005 blaðið helgað myndlýsingum. Frá 2003 hafa samtökin veitt Dimmalimm verðlaunin fyrir myndlýsingar.

Listamiðstöðin Gerðuberg hefur verið í farabroddi í umfjöllun um barnabækur. Til að mynda hafa þar verið haldnar árlega sýningar á frummyndum en mikið hefur skort á að þeim hafi verið haldið til haga.

Dimmalimm verðlaunin hafa eftirtaldir myndlýsar hlotið frá upphafi:

2002 Halla Sólveig Þorgeirsdóttir fyrir Engil í vesturbænum sem skrifuð er af Kristínu Steinsdóttur.
2003 Brian Pilkington fyrir Mánasteina í vasanum.
2004 Áslaug Jónsdóttir fyrir Nei, sagði litla skrímslið.
2005 Áslaug Jónsdóttir fyrir Gott kvöld.
2006 Björk Bjarkadóttir fyrir Amma fer í sumarfrí.
2007 Sigrún Eldjárn fyrir Gælur, fælur og þvælur.
2008 Kristín Ragna Gunnarsdóttir fyrir Örlög guðanna.
2009 Ragnheiður Gestsdóttir fyrir Ef væri ég söngvari.
2010 Karl Jóhann Jónsson fyrir Sófus og svínið.
2011 Kristín Ragna Gunnarsdóttir fyrir Hávamál.
2012 Birgitta Sif Jónsdóttir fyrir Óliver.
2013 Lani Yamamoto fyrir Stínu stórusæng.

Í þakkarræðu sem Áslaug Jónsdóttir hélt í tilefni verðlaunanna 2004 lýsti hún á kjörum myndlýsa og réttindabaráttu:

Kjör myndskreyta eru yfirleitt þau að vinna við óreglulegt framboð verkefna, fyrir lág laun. Það er löngu tímabært að fleiri myndskreytar njóti listamannalauna, þó einhverjir, - sem hljóta að vera tegundin: meinfýsni-hlakkandi úrtölumenn", telji að leggja eigi slík laun niður og gefa þannig alla list fullkomlega á vald metsölu og markaði, ellegar amatörisma og hobbí-starfsemi. (Áslaug Jónsdóttir, 2004)

Athyglisvert er álit dómnefndar við afhendingu verðlaunanna 2006 til Bjarkar Bjarkadóttur, sérstaklega sú skoðun að framfarir í tölvutækni hafi skilað sér í meiri gæðum mynda en minni frumleika:

Það er álit dómnefndar að í ár sé meiri fagmennska ríkjandi í myndskreytingum íslenskra barnabóka en oft áður, og má vera að Dimmalimm eigi einhvern þátt í þeim framförum. Það má ekki síst þakka ýmsum forritum sem bjóðast innan tölvutækninnar. Um leið virðist tæknin leiða til nokkurrar einsleitni og skerðingar ímyndunaraflsins, þannig að svipuð höfundareinkenni eru á bókum eftir aðskiljanlega höfunda. Alltént voru það barnabækur með gamla laginu, teiknaðar og málaðar í höndunum, sem höfðuðu mest til dómnefndar, þar með talin auðvitað verðlaunabókin í ár. (Aðalsteinn Ingólfsson, 2006)

Og um myndir Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur í verðlaunabók ársins 2008 Örlögum guðanna segir Aðalsteinn Ingólfsson formaður dómnefndar:

Höfundur myndskreytinganna beitir flestum þeim brögðum sem fyrirfinnast í sýnisbók nútíma myndskreytinga, vatnslitatækni, klippimyndatækni og skopmyndatækni, notar allra handa grafísk þrykk og ótal leturgerðir, alls konar skriftækni frá veggjakroti til skrautskriftar, og vísar auk þess í helstu stílbrögð listasögunnar af allt að því póstmódernískri uppáfinningarsemi. Þetta virðist eins og uppskrift að fullkominni óreiðu í bókarformi. Nema hvað öll þessi tækni helst í hendur við textann á aðdáunarverðan hátt, leikur sér með hann, eflir hann og gæðir hann tilhlýðilega ævintýralegum ljóma. (Aðalsteinn Ingólfsson, 2009)

Þessi orð um myndir Kristínar Rögnu lýsa vel þeim tilraunum með myndabókaformið sem átt hafa sér stað síðustu ár og hvernig unnið er með stílblöndun og vísanir við sköpun margræðs, póstmódernísks texta.

 
 
Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is