Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Bókahönnun

Myndabækur

Dimmalimm verðlaunin

Flokkun

Saga

Hugmyndafræði

Lyklar Mobiusar

Samspil orða og mynda

Tákn

Bókahönnun

Gott kvöld

Sýnishorn íslenskar

Sýnishorn erlendar

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Hér áður fyrr skrifuðu rithöfundar texta myndabóka. Síðan voru teiknarar fengnir til að myndlýsa, oft í fljótheitum líkt og um auglýsingu væri að ræða. Stundum var myndlýsa ekki getið, myndir á röngum stöðum í sögunni, bókahönnun ábátavant og frágangur til vansa. Einnig voru erlendar glansmyndir í litlu samhengi við textann oft teknar til handargagns.

Myndlýsar undirstrika að myndir, texti og bókahönnun þurfi að vinna saman. Margir myndlýsar vinna bækur sínar frá upphafi til enda, semja líka textann, líkt og Sigrún Eldjárn og Áslaug Jónsdóttir. Þar með þróast allir þættirnir samhliða. Brian Pilkington segist í viðtali hafa hönd í bagga með öllu ferlinu" og náin samvinna er líklegast algengasta aðferðin í dag þegar um tvo höfunda er að ræða. (Guðrún Hannesdóttir, 1997:15)

Brot og lögun bókar er hluti af hönnuninni, meðvitað val. Sigrún Eldjárn ákvað að bókin Týndu augun skyldi verðalítil og feit". (Sigrún Eldjárn 2003: 30) Nei, sagði litla skrímslið sem Áslaugu Jónsdóttur vann í samvinnu við norræna myndlýsa og rithöfunda erlöng og mjó". Sjálf sá hún um bókahönnun og hugsaði bókina í örkum en ferlinu lýsir hún í Nordisk blad 2005. (Áslaug Jónsdóttir, 2005:4-5) Lögun bókarinnar dregur fram stærðarmuninn á litla og stóra skrímslinu.

Flestar myndabækur eru þó láréttar sem gefur myndunum meira rými og hentar betur ef sýna á hreyfingu.
Varðandi stærð bóka eru tvö sjónarmið ríkjandi, annaðhvort að hafa bækurnar litlar, fyrir litlar hendur, eða stórar, að börn séu hrifin af stórum hlutum.

Skissur frá gerð bókarinnar Nei, sagði litla skrímslið. Bókin var samstarfsverkefni þriggja norrænna myndlýsa og eins rithöfundar sem hófst á sumarnámskeiði. Áslaug segir þá vinnu hafa verið mjög frjóa og lýsir ferlinu í Nordisk blad 2005.

Í greinunum Setið í kjöltunni" og Sköpun hefðar" fjallar Margrét Tryggvadóttir ítarlega um bókahönnun og Kristín Ragna Gunnarsdóttir gerir bókahönnun Sigrúnar Sigvaldadóttur góð skil í greininni Vængir hugans".

Kápa og baksíða

Kápan er mjög mikilvæg og ræður oft vali kaupandans/lesandans. Hún er hluti af persónusköpun og gefur, ásamt titli verksins, tóninn um innihald bókarinnar, fyrir hvern hún er ætluð og hvers konar bók þetta er. Stöðlun er áberandi ef um seríur er að ræða. Það tíðkast ekki lengur að nota einhverja mynd úr bókinni þó að sú hefð hafi ekki alveg lagst af.

Kápur eru oftast hugsaðar eins og opna, ein mynd sem tengir bakhlið og framhlið. Stundum er hún sett saman úr tveimur myndum sem oft gefa hugmynd um efni sögunnar. Algengt er að myndin á forsíðunni vísi til átaka eða vanda sögunnar, en myndin á baksíðunni tákni lausn.

Í How Picturebook Work segja Maria Nikolajeva og Carole Scott frásögn yfirleitt ekki hefjast á kápunni en hún geti þó gert það og jafnvel farið út fyrir söguna og á baksíðu. Þær segja slæmt þegar kjaftað er frá á kápunni, t.d. með að opinbera aðalspennuna eða stuðla mjög að einni ákveðinni túlkun í stað margræðni. Þær stöllur segja baksíðuna oft óspennandi með kynningartexta og leiðbeiningum en benda á að einstaka höfundur hanni baksíðuna í tengslum við bókina í heild og þar megi jafnvel eitthvað skemmtilegt finna. (Nikolajeva og Scott, 2001:241-257)

Saurblöð og titilsíður

Oft eru titilsíður og saurblöð hvít og hlutlaus, aðeins með prentuðu nafni bókar en þó eru höfundar og hönnuðir farnir að vinna meira markvisst með þessar síður. Titlar myndabóka eru oft hefðbundnir og í þeim koma mjög oft fram nöfn aðalpersóna, aðalviðföng og átök. Titlarnir eru jafnvel staðlaðir: Leitin að..., Sagan af..., Tumi fer í leikskóla....

Á saurblöðum, titilsíðum og kápu geta myndlýsar virkilega notið sín. Algengt er að fyrsta opnan sé sviðsetning og sýni umhverfið, jafnvel úr lofti. Lokaopnan gefur oft í skyn fleiri ævintýri eða hún speglar þá fyrstu þótt eitthvað hafi breyst í samræmi við þroska persóna. Þessar opnur ramma inn söguna og leiða lesandann oft í hring. Hringhugsunin er mótvægi við línulega hreyfingu textans og stuðlar að endurlestri sem ekki felur í sér endurtekningu heldur dýpri túlkun og skilning.

Margrét Tryggvadóttir bendir á að í bókinni Krakkakvæði eftir Böðvar Guðmundsson eru myndir af ýmsum hlutum á saurblöðum Áslaugar Jónsdóttur og þegar betur er að gáð má leika sér við að finna nöfn hluta sem ríma saman. (Margrét Tryggvadóttir, 1998: bls. vantar) Í greininni Vængir hugans" lýsir Kristín Ragna Gunnarsdóttir markvissri notkun saurblaða Engils í vesturbænum sem sýna appelsínugula borg og geta bæði táknað sólarupprás og sólarlag. Titilsíðan sýnir sömu mynd og hvítur titillinn minnir á form vængja. Engillinn flýgur inn í söguna. Á síðustu opnu sést lítil mynd af englinum hægra megin. Sögunni er lokið, engillinn er enn á sveimi, flýgur ekki út úr sögunni heldur á hverfur inn í sólarlagið og er horfinn á aftari saurblöðunum sem sýna sömu mynd að englinum undanskildum. (Kristín Ragna Gunnarsdóttir, 2006:29)

Áslaug Jónsdóttir: Krakkakvæði. Rímorð: fíll og bíll, skata og fata...

Engill í vesturbænum: aftan á kápu fremst og aftast, sólarupprás/sólarlag.

Saurblað, vinstri eins og aftan á kápu, hægri síða með letri sem minnir á væng leiðir lesandann inn í söguna.

Síðasta opna, engillinn er vinstra megin. Sögu lokið, engillinn ekki á útleið en er horfinn á næstu opnu sem er bakopnan, runninn saman við sólarlagið.

Opnur

Áður fyrr var texti öðrum megin og mynd hinum megin en í dag er hver opna oftast hugsuð sem ein heild, myndheimur. Oftast endar sagan á vinstri síðu í öryggi en það er ekki algilt.

Margrét Tryggvadóttir segir mikilvægt er að takturinn milli síðna sé góður. Myndirnar þurfa að hæfa lengd textans, þannig að lesandinn sé álíka lengi að lesa textann og barnið að skoða myndirnar. Smáatriðin á hlöðnum myndum Skilaboðaskjóðunnar eftir Þorvald Þorsteinsson eru t.d. í takt við flókinn textann. (Margrét Tryggvadóttir,1999:110) Maria Nikolajeva og Carole Scott segja texta línulegan en myndir kyrrar sem skapi togstreitu. Textinn æðir áfram meðan myndirnar krefjist þess að við stöldrum við og gefum þeim gaum. (Nikolajeva og Scott, 2001:160)

Gera þarf ráð fyrir textanum við hönnun opnu, þannig að hann njóti sín. Stundum þarf að passa upp á að önnur tungumál passi inn í textarammann. Skissur dönsku listakonunnar Lilians Brögger í Nordisk Blad sýna hvernig hún hugsar myndir sínar í opnum og býr til pláss fyrir textann. (Lilian Brögger, 2005:26-7)

Skissur Lilians Brögger: Pigen der fik rigtig mange söskende.

Leturgerð og uppsetning texta

Leturgerð er hluti af heildarútliti bókar. Mikilvægt er að letrið sé læsilegt, línubil hæfilegt og að textinn njóti sín. Fíu Sólar bækur Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, sem flokkast undir myndlýstar sögur, eru geysivinsælar og kannski hefur það eitthvað að segja að þar er brotið frekar lítið, letrið og línubilið stærra en venjulega og myndir brjóta textann upp reglulega. Í Sögunni af bláa hnettinum vinnur Áslaug mjög markvisst með letrið og leysir upp landamæri texta og mynda. Hljóðið í vélsöginni og hreyfing hennar er túlkuð með letrinu svo og hlátur fljúgandi barna. Í Englum í vesturbænum speglar textinn um afmæliskökuna form kökunnar á hinni síðunni. Fleiri dæmi um leik með leturgerðir má sjá hjá Halldóri Baldurssyni í hringlaga formi naggrísa og Ragnheiður Gestsdóttir vísar í myndlýsta upphafsstafi miðaldaskinnrita í ævintýrinu um Hlina kóngsson.

Áslaug Jónsdóttir: Sagan af bláa hnettinum

Halla Sólveig Þorgeirsdóttir: Engill í vesturbænum

 

Halldór Baldursson: Dýr

 

Ragnheiður Gestsdóttir: Sagan af Hlina kóngssyni 
Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is