Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Myndabækur

Myndabækur

Dimmalimm verðlaunin

Flokkun

Saga

Hugmyndafræði

Lyklar Mobiusar

Samspil orða og mynda

Tákn

Bókahönnun

Gott kvöld

Sýnishorn íslenskar

Sýnishorn
erlendar

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Myndskreyting eða myndlýsing?

Myndabækur fyrir börn eru sérstakar að því leyti að þar mætast tvö listform, myndir og texti. Auk þess gera þær ráð fyrir tveimur lesendum, barni og fullorðnum. Fullorðnir hlæja til dæmis á öðrum stöðum og leggja oft táknrænni merkingu í verkin. Annað sem einkennir myndabækur er hversu leikrænar þær eru. Mikið er um samtöl og oft lögð áhersla á hljóm orða. Hver opna myndar heild en lesandinn hefur áhrif á framvindu frásagnar með því að fletta yfir á næstu opnu. Er talað um cliffhanger" og the drama of the pageturner" á ensku í því samhengi.

Myndlistarmaðurinn Áslaug Jónsdóttir sem samið og hannað hefur margar myndabækur, ýmist ein eða í samvinnu við aðra, kýs að nota hugtökin myndlýsing og myndlýsir. Hún hafnar myndskreytingarhugtakinu á þeim forsendum að hlutverk mynda í myndabókum hafi breyst. Hún skiptir hlutverki mynda í myndabókum í þrennt:

1. Skreyting.
2. Upplýsing (að segja sögu).
3. Skýring (túlkun hugmynda, dýpkun skilnings).

Vægi myndanna er mest í þriðja hlutanum og í samræmi við ríkjandi viðhorf starfandi myndlýsa samtímans á hlutverki sínu. (Áslaug Jónsdóttir 2006:6)

Hugtökin myndlýsir og myndlýsing hafa ekki enn fest sig í sessi. Sumir vilja nota hugtakið myndhöfundur en aðrir, svo sem Þórarinn Eldjárn, styðja myndskreytingarhugtakið. Í samvinnuverkefnum þeirra Sigrúnar Eldjárn er hennar er getið sem höfundar en hann sagður ljóðskreyta.


Tveir miðlar - einn texti

Í gamla daga voru myndabækur oft einfaldar að byggingu, með fræðandi og uppörvandi frásögn. Þær voru jafnvel á einfölduðu máli, með atburðum í tímaröð og skýrri aðgreiningu fantasíu og raunveruleika. Í dag er öldin önnur og framsæknir myndabókahöfundar og fræðimenn vinna með og rýna í sérstöðu og möguleika myndabókaformsins.

Í bók sinni How Picturebooks Work segja Maria Nikolajeva og Carole Scott sérstöðu myndabóka felast í samspili orða og mynda. Því sé ekki hægt að skoða bækurnar annaðhvort út frá orðunum eða myndunum heldur sem texta sem verði til í samleik beggja miðlanna. Þær skipta myndabókum í þrennt:

1. Myndskreytta bókin.
2. Samhverfa myndabókin eða uppbótarmyndabókin.
3. Margræða myndabókin.

Með myndskreyttu bókinni eiga þær við bók þar sem textinn getur staðið án mynda. Með samhverfu - eða uppbótarmyndabókinni eiga þær við bók þar sem texti og myndir segja sömu söguna í meginatriðum, þótt myndirnar auðgi textann. Margræðu myndabókina kalla þær 'picturebook' í einu orði sem lýsir breyttu hlutverki myndabóka. Myndirnar eru þar óaðskiljanlegur hluti bókarinnar og unnið er með möguleika formsins á frjóan hátt. Flestar myndabækur, svo sem frægar verðlaunabækur, segja þær tilheyra öðrum flokki en frá 1980 hafi fjölgað í þriðja flokknum, meira er um tilraunir, huglægar og táknrænar myndabækur. (Nikolajeva og Scott 2001:11-27)


Gildismat

Fyrir utan myndafátækt einkenndist myndabókaútgáfa á Íslandi áður fyrr af metnaðarleysi hvað varðar innihald og útlit bóka. Nærtækast er að túlka það sem virðingarleysi gagnvart börnum og konum en konur hafa verið í miklum meirihluta á sviði barnabóka. Í grein sinni Myndir í barnabókum á Íslandi" tengir Ragnheiður Gestsdóttir einhæfa og fátæklega sögu íslenskra myndlýsinga því að virðing fyrir orðinu sé landlæg á Íslandi sem birtist skýrast í mikilvægi fornbókmennta. Eins hafi lútherskan 1550 eytt skreytingum og kaþólskri list úr kirkjum, innprentað iðran og því hafi menn orðið hræddir við hið fallega. Af öðrum þáttum nefnir hún stutta myndlistarhefð, að á fyrri hluta 20. aldar hafi listamenn menntaðir erlendis þurft að móta nýja hefð og kenna landsmönnum að meta myndlist og loks hafi bókaútgefendur ekki sýnt myndabókum tilhlýðilegan áhuga. (Ragnheiður Gestsdóttir 1995:19-24)

Viðhorf myndabókahöfunda hafa breyst en svo virðist sem enn eimi eftir af þeirri hugmynd að orðið sé myndinni æðra. Til dæmis fékk Andri Snær Magnason einn Íslensku bókmenntaverðlaunin 1999 fyrir Söguna af bláa hnettinum þótt myndir Áslaugar Jónsdóttur og bókahönnun séu óneitanlega órjúfanlegur hluti heildarverksins. Önnur lífseig hugmynd er að texti örvi ímyndunaraflið en myndir drepi, með myndum sé verið að mata börn í stað þess að þau skapi eigin heim. Myndlýsar hafa mótmælt þessu og segja góða list hafa hvetjandi áhrif á ímyndunaraflið. Margrét V. Tryggvadóttir segir í greininni Griðastaðurinn" að myndabækur eigi ekki að lesa bara fyrir svefninn eða geyma hátt upp í hillu, börn eigi að hafa við höndina glás" fjölbreyttra bóka, góðra og slæmra, nýrra og gamalla, íslenskra og erlenda, í mismunandi stíl. Þannig kynnist börnin myndlist og læri að meta hana. (Margrét V. Tryggvadóttir 2003:17)

Talsverð gróska hefur verið á sviði myndlýsinga undanfarin ár en þó eru Íslendingar enn eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða í þessum efnum, bæði hvað varðar viðurkenningu, sölu barnabóka og faglega umræðu. Í Danmörku eru til dæmis listaskólar sem bjóða upp á nám í myndlýsingum í nánu samstarfi við bókaútgáfur.

Áslaug Jónsdóttir birti árið 2001 greinina Yfir eyðimörkina á merinni myndlýsingu" þar sem hún líkir faglegri umræðu við eyðimörk. Þar segir hún:
Myndlýsingar í bókum eru áhugamál fremur fámenns hóps grafískra hönnuða og myndlistarmanna sem þrjóskast við að sinna þessu fagi, nánast í sjálfboðavinnu." (Áslaug Jónsdóttir, 2006:5) Orð Sigrúnar Eldjárn í viðtali um mikilvægi myndabóka ítreka enn mikilvægi þessa vanmetna fags: Það sem börn sjá og heyra festist mun betur og tollir lengur í heilaberkinum heldur en það sem síðar rekur á fjörur manns [...] Það er því eins gott að vanda sig." (Sigrún Eldjárn, 2003:31)

 
Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is