Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur

 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Saga hreyfimynda - stutt ágrip

Tegundir hreyfimynda

Saga hreyfimynda

Anime

Íslenskar hreyfimyndir

Heimildir

Verkefni og ítarefni

1900-1930

Þekktasti hreyfimyndagerðamaðurinn er án efa Walt Disney (1901-1966) en hann hóf feril sinn átján ára gamall. Það var þó ekki fyrr en 1928 sem Mikki Mús birtist fyrst og lagði grunninn að veldi Disney. Mikki var teiknaður af Up Iwerks, samstarfsmanni Disney, en Walt Disney leikstýrði myndunum um hann, þar á meðal Steamboat Willie (1928) sem var fyrsta hreyfimyndin með hljóði.

Í Evrópu og Sovétríkjunum var á sama tíma að byggjast upp vinsæl og framúrstefnuleg hreyfimyndagerð og fyrstu vaxtarbroddarnir birtust í Asíu.

Walt Disney (1901-1966

Ævintýri Achmeds prins eftir Lotte Reiniger frá 1926

Það er erfitt að segja til um fyrstu hreyfimyndina í fullri lengd því þetta efni hefur ekki allt varðveist. Árið 1926 kom út í Þýskalandi myndin Ævintýri Achmeds prins (Die Abenteuer des Prinzen Achmed) gerð af Lotte Reiniger, einni fárra kvenna sem sett hafa mark sitt á hreyfimyndagerð. Myndin var gerð með úrklipputækni og í skuggamyndastíl, þótti mikið afrek á sínum tíma og er fyrirmynd fyrir þessa tegund formsins.

1930-40

Hreyfimyndir nutu gífurlega vinsælda snemma á fjórða áratugnum og er það almennt rakið til efnahagskreppunnar. Fólk gleymdi sér um stund yfir þessum nýstárlega miðli og hló að ýmiskonar skondnum verum og uppátækjum. Tónlist varð afar mikilvæg og margar myndir að mestu leyti leikur með samspil mynda og tónlistar. Á þessum fyrstu árum voru hreyfimyndir ekki endilega álitnar barnaefni heldur höfðuðu þær til allra aldurshópa.
 
Litur kemur fyrst fram árið 1930 og olli byltingu í hreyfimyndagerð og fjórum árum síðar, 1934, birtist Andrés Önd fyrst sem aukapersóna í myndinni Wise Little Hen. Staða Disney sem lykilmanns í teiknimyndum styrktist enn þremur árum síðar þegar Mjallhvít og dvergarnir sjö var frumsýnd (1937). Hún var fyrsta bandaríska teiknimyndin í fullri lengd og þrátt fyrir efasemdir ýmissa framámanna í Hollywood sló hún í gegn og þykir eitt af listaverkum hreyfimyndagerðar.

Auglýsing fyrir Mjallhvíti og dvergana sjö frá 1937

Mjallhvít og dvergarnir sjö frá 1937

1940-50

Síðari heimsstyrjöld skipti sköpum fyrir hreyfimyndagerð því teiknimyndir voru vinsælt áróðurs- og skemmtiefni fyrir hermenn og almenning, bæði á Vesturlöndum og ekki síður í Japan þar sem hreyfimyndagerð hófst af alvöru.

Á stríðsárunum koma fram ýmsar af frægustu bandarísku teiknimyndapersónunum eins og Loony Toons kanínan Bugs Bunny (1940), Tommi og Jenni (1940) og Woody Woodpecker (1940). Þessi kvikindi komu ekki frá Disney heldur frá Warner Bros MGM og Woody kom frá hinu lítt þekkta Lantz Stúdíói. Eftir stríðið kom Warner til dæmis fram með köttinn Sylvester og fuglinn Tweety Pie (1947) sem margir þekkja, en enn þekktara óvinapar, einnig frá Warner, er líklega Roadrunner og Wile E. Coyote (1949).

Tékkinn Jiri Trnka er sá listamaður sem haft hefur einna mest áhrif á brúðu-hreyfimyndir í stopp-hreyfingar stílnum. Fyrsta mynd hans í fullri lengd nefnist Næturgali keisarans (1948) og vakti mikla athygli, en auk hennar gerði hann fjölda mynda bæði fyrir börn og fullorðna. Trnka var þó ekki sá fyrsti til að vinna með formið, Ungverjinn George Pal vakti heilmikla athygli á árunum fyrir stríð fyrir brúðumyndir sínar, en hann fluttist til Bandaríkjanna árið 1939 og hélt áfram að búa til brúðumyndir þar næstu árin. Af öðrum austur-evrópskum listamönnum má nefna Aron Aranov og Dima Lingurski frá Búlgaríu og Elber Tuganov frá Eistlandi.

Næturgali keisarans eftir Jiri Trnka frá 1948

1950-70

Disney fór aftur að framleiða teiknimyndir í fullri lengd frá og með 1950, eftir þrettán ára hlé. Frá þeim tíma eru margar vinsælar myndir hans eins og Öskubuska (1950), Lísa í Undralandi (1951) og Pétur Pan (1953). Þrívídd slær í gegn árið 1953 en vinsældirnar entust ekki mikið lengur en eitt ár en nú á allra síðustu árum virðast vinsældir þrívíddarmynda vaxandi.

Heyfimyndagerðamaðurinn Roy Harryhausen kemur fram á sjónarsviðið á sjötta áratugnum sem er tími skrýmslamynda í Bandaríkjunum. Harryhausen sérhæfði sig í gerð skrýmsla og óvætta í leiknum kvikmyndum. Fram að þessum tíma höfðu nokkur slík birst, það frægasta er King Kong (1933) en af þeim nýju voru sum geimversk (og tengdust kalda stríðinu og óttanum við kommúnismann) en önnur heimaalin (oft risavaxin og stökkbreytt af völdum geislunar eða álíka). Frá og með Jurassic Park (1993) (en margt þar má tengja hreyfimyndum Harryhausen) verður tölvuhreyfimyndagerð sjálfsagður hluti leikinna mynda.

King Kong frá 1933

Jurassic Park frá 1993

Hreyfimyndagerð var öflug í Evrópu á eftirstríðsárunum, í Bretlandi, Ítalíu og í því sem þá var Júgóslavía. Myndmálið var nokkuð ólíkt því bandaríska og Zagreb stúdíóið í Júgóslavíu þróaði til dæmis takmarkaða hreyfingu á hátt sem fangaði bæði listræn gæði og náði jafnframt almennum vinsældum. Þetta var afar nýstárlegt á tíma þegar flæðandi hreyfingar í anda Disney voru viðmiðið. Í Sovétríkjunum var líka heilmikil hreyfimyndaframleiðsla, en þar var hún ríkisrekin og viðfangsefnin því afar þjóðleg og á stundum með íþyngjandi boðskap.

Það var þó ekki bara í Sovétinu sem boðskapur spilaði þungavigtarhlutverk í teiknimyndum, en árið 1954 var Dýrabær frumsýnd í Bretlandi, teiknimyndaútgáfa af samnefndri skáldsögu George Orwell. Sagan var á sínum tíma túlkuð sem gagnrýni á kommúnisma og Sovétríkin og sú sýn setti einnig mark sitt á myndina, enda kalt stríð í uppsiglingu.

Dýrabær eftir sögu George Orwell


Á eftirstríðsárunum fer sjónvarp að gegna lykilhlutverki fyrir hreyfimyndagerð en vegna þess að sjónvarpsefni var gert fyrir minni pening olli þetta breytingum á tækninni. Þrátt fyrir að takmörkuð hreyfing hafi verið notuð í listrænum tilgangi - og sé enn - þá var það fyrst og fremst í krafti sjónvarps sem þessi tegund teiknimynda verður almenn og algeng. Teymið Hanna-Barbera (sem gáfu okkur Tomma og Jenna) var leiðandi í sjónvarpsteiknimyndagerð með klassískum karakterum eins og birninum Jóga (1958) og Flintstones (1960).

Með sjónvarpinu breytist hlutverk hreyfimynda. Þær tilheyra að mestu barnamenningu en auk þess verður vinsælt að nýta þær í auglýsingar. Auglýsingar eru mikilvæg tekjuuppspretta fyrir hreyfimyndagerðarmenn auk þess sem þær bjóða upp á þjálfun í faginu.

Sjónvarpið tók myndasögur upp á arma sína og breytti í teiknimyndir og voru það helst ofurhetjurnar sem urðu fyrir valinu. Súperman birtist í sinni eigin teiknimyndaseríu árið 1966 og fleiri fylgdu í kjölfarið, þar á meðal Spiderman og The Fantastic Four og enn seinna Justice League of America. Einnig voru framleiddar seríur í anda ofurhetjumyndasagna, sumar hugsaðar sem einskonar skopstælingar. Þær þykja þó ekki sérlega merkilegar, nema helst fyrir það að vera mjög slæmar.

Súpermann nýleg útfærsla

Margt af þessu efni var undir áhrifum frá anime, en á sjöunda áratugnum urðu japanskar teiknimyndaseríur verulega vinsælar í heimalandi sínu, svo vinsælar að Bandaríkjamenn keyptu þær og sýndu í amerísku sjónvarpi - iðulega nokkuð breyttar og ‘aðlagaðar’ amerískum viðmiðum. Astro Boy ruddi brautina fyrir þetta efni en teiknimyndirnar um hann eru eins og flestallt anime byggt á vinsælum myndasögum (manga). Frakkar nýttu sér einnig myndasögutengingu og hófu framleiðslu á Ástríksteiknimyndum 1967.

Úr myndasögunni um Súpermann

Samhliða framleiðslu á vinsælu efni, bæði í sjónvarpi og kvikmyndum unnu listamenn áfram með formið. Dæmi um mynd sem sameinaði tilraunastarfssemi og vinsældir var bítlamyndin Yellow Submarine (1968) sem framleidd var í Bretlandi og þótti marka tímamót að ýmsu leyti, bæði hvað varðaði nýja tækni (meðal annars vel heppnaða útfærslu á takmarkaðri hreyfingu) og sem mynd fyrir fullorðna (og unglinga). Þetta lagði línurnar fyrir framhaldið, en næsta áratuginn komu fram fleiri slíkar, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Samhliða eykst virðingin fyrir hreyfimyndalist sem sérstöku listformi.

1970 - 1980

Neðanjarðarmyndasagan kemur fram á sjónarsviðið í kringum 1970 og árið 1972 var gerð teiknimynd byggð á einni slíkri, Fritz the Cat eftir Robert Crumb. Ári síðar gera Frakkar myndina Ævintýraleg pláneta (La Planéte Sauvage) sem sömuleiðis er undir áhrifum frá myndasögum. Í Bretlandi er Terry Gillian að byrja feril sinn sem hreyfimyndasmiður með Monty Python hópnum, en hreyfimyndir hans voru iðulega einskonar klippimyndir, sérlega einfaldar og höktandi í hreyfingum en höfðu mikil áhrif.

Monty Pyhton

Simpson fjölskyldan frá 1987

 

1980- ca. 2000

Níundi áratugurinn færði heiminum Simpsons fjölskylduna (1987) - sem þó sló ekki verulega í gegn fyrr en á þeim tíunda - og upphafið af tölvuhreyfimyndum, en þar er oft miðað við Tron (1982), sem var að hluta til leikin og að hluta til gerð í tölvu. Einnig varð nokkur endurnýjun í ‘klassískri’ teiknimyndagerð, bæði hjá Disney (Roger Rabbit (1988) og Litla hafmeyjan (1989)) og keppinautunum, en Steven Spielberg og Georges Lucas komu báðir að teiknimyndum (An American Tail (1986) og The Land Before Time (1988)).

Anime fær aukna viðurkenningu og útbreiðslu á Vesturlöndum og hefur mikil áhrif, bæði hvað varðar viðfangsefni og stíl. Ghost in the Shell er frumsýnd árið 1995, en áhrifa hennar gætir greinilega í Matrix myndunum, sem hófu göngu sína árið 1999.

Þrátt fyrir að hreyfimyndagerð hafi blómstrað víða um heim, bæði í vinsælu efni svo og tilraunakenndara og listrænna formi, þá voru blikur á lofti: hreyfimyndir eru dýrar í framleiðslu og í auknum mæli fór vinnan við þær (teikningarnar) fram í löndum þar sem hægt var að fá ódýrt vinnuafl, eins og til dæmis í Suður-Kóreu. Þetta átti jafnt við um japanskar teiknimyndir sem evrópskar.

Hreyfimyndagerð í tölvum sprakk svo út af fullum krafti á tíunda áratugnum og margir álíta að handverksþekkingin sé víkjandi. Toy Story var fyrsta tölvugerða myndin í fullri lengd og var frumsýnd árið 1995. Tölvutæknin býður uppá fjölmarga möguleika sem auka á raunsæi í hreyfimyndum, allt frá því að sýna loðfeldi hreyfast í vindi til andlitstjáningar. Á sama tíma koma fram myndir sem nýta sér tölvuhreyfimyndatækni innan leikinna mynda, eins og Jurassic Park (1993) og Terminator 2 (1991).

Tölvuteiknimyndir voru aðallega fyrir börn þau mörk fóru að riðlast og meira varð um myndir sem höfðuðu til stærra hóps og eldri. MTV ruddi brautina og framleiddi meðal annars þættina um Beavis og Butthead. Í Kanada birtist South Park sem höfðaði til sama hóps. South Park var upphaflega gert með klippimyndum en það þótti of dýrt svo þættirnir voru í auknum mæli unnir í tölvu.

Tölvan er þó víðs fjarri í myndum Aardman fyrirtækisins sem meðal annars fóstraði þá Wallace og Gromit. Myndirnar um þá og fleiri myndir fyrirtækisins eru gerðar með gamaldags hreyfimyndatækni og leirbrúðum. Fyrsta myndin í fullri lengd var Chicken Run (2000).

Wallace og Gromit, Chicken Run frá 2000

Á síðustu árum eru tölvuteiknaðar myndir orðnar ráðandi á markaðnum, allavega hvað varðar vinsælar myndir í Bandaríkjunum og Japan. Í Evrópu, aðallega Austur-Evrópu, er enn verið að gera hreyfimyndir uppá gamla mátann og þar er einnig að finna meiri breidd í stílum og viðfangsefnum, nú sem fyrr. Ekki má þó afgreiða tölvuteiknaðar myndir sem einhverja verksmiðjuframleiðslu, tölvuteiknun er einfaldlega nýtt svið hreyfimyndagerðar og þar fer einnig fram listræn þróun, hvort sem er í hreyfimyndum eða leiknum myndum með hreyfimyndaívafi.

Tónlistarmyndbandið er ennþá mikilvægur vettvangur tilraunastarfssemi og brúar oft bilið milli hins óvenjulega og almennra vinsælda. Áhrif anime birtast hvað mest í sjónvarpi, en þættirnir um Stuðboltastelpurnar eru gott dæmi um velheppnaða bandaríska útgáfu af japanska stílnum og tækninni, enda nutu þeir mikilla vinsælda í Japan.

Stuðboltastelpurnar

Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is