Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Anime - japanskar teiknimyndir

Tegundir hreyfimynda

Saga hreyfimynda

Anime

Íslenskar hreyfimyndir

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Upphaf og þróun

Teiknimyndir eru algengasta gerð hreyfimynda í Japan þrátt fyrir að hinar tegundirnar séu einnig til, stopp-hreyfimyndir með brúðum hafa verið gerðar næstum frá upphafi (en Japanir eiga sér ríka hefð fyrir leikbrúðum) og tölvugerðar myndir eru nú í auknum mæli að verða algengar.

Anime hefur sterka stöðu í Japan og er framleitt fyrir þrjá aldurshópa, börn, unglinga og fullorðna. Sjónvarpið er helsti vettvangurinn en ef þættir njóta sérstakra vinsælda eru einnig gerðar teiknimyndir í fullri lengd fyrir bíó. Að stærstum hluta til er þetta efni nátengt myndasögum og í sumum tilfellum leikföngum, en síðustu árin hafa komið fram teiknimyndagerðarmenn sem gera alveg nýjar myndir, óháðar öðru efni. Þekktastir þeirra eru Hayao Miyazaki og Satoshi Kon.

Anime er eiginlega allt gert með takmarkaði hreyfingu og því er stundum talað um að japanskar teiknimyndir séu meira höktandi og hikandi en bandarískar. Takmörkuð hreyfing, sem í anime á rætur sínar að rekja til takmarkaðs fjármagns, hefur orðið að sérstökum stíl japanskra teiknimynda og lykilatriði fyrir framleiðslumagnið, dreifingu og vinsældir. Í anime eru aðeins átta rammar á sekúndu (miðað við tólf á Vesturlöndum) og þess vegna er miklu ódýrara að framleiða þetta efni, bæði í samanburði við aðrar teiknimyndir og leiknar myndir. Þetta gerði það svo að verkum að hægt var að framleiða svona mikið af anime og tryggði einnig fjölbreytni.

Japanir voru fljótir að tileinka sér hina nýju hreyfimyndatækni og byrjuðu að framleiða hreyfimyndir strax á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Það var þó ekki fyrr en með síðari heimsstyrjöld sem anime virkilega komst á flug, en herinn fjármagnaði anime í áróðursskyni og fyrsta myndin í fullri lengd var frumsýnd árið 1945, Hinir himnesku sjóhermenn Momataros eftir Mitsuyo Seo.

Eftir stríð dalaði framleiðslan enda var efnahagur Japan í rúst. Þó var eitthvað gert af tilraunamyndum fyrir listrænan markað og vöktu margar þeirra nokkra athygli.

Árið 1963 markaði tímamót, því annarsvegar var frumsýnd teiknimyndin Litli prinsinn og drekinn með átta höfuð, eftir Yugo Serikawa, byggð á japanskri goðsögn, og hinsvegar hóf sjónvarpsþáttaröð um Astro Boy eftir Osamu Tezuka göngu sína.

Osamu Tezuka sem skrifaði myndasögurnar um Astro Boy kom einnig að gerð teiknimyndanna sem voru gerðar fyrir ákaflega lítið fjármagn og þannig varð til þessi stíll takmarkaðrar hreyfingar sem Tezuka og félagar nýttu sér til hins ýtrasta. Sem dæmi má nefna bardagasenur þar sem Astro Boy er sýndur í mismunandi stellingum, hratt, en án þess að hreyfast í raun og veru. Á móti þessum tæknilegu takmörkunum kom svo sterk saga sem gerði það að verkum að fólk samþykkti þættina og þeir urðu gífurlega vinsælir, svo vinsælir að þeir voru strax keyptir yfir til Bandaríkjanna og sýndir í sjónvarpi þar.

Hinir himnesku sjóhermenn Motamataros eftir Mitsuyo Seu frá 1945
Litli prinsinn og drekinn með átta höfuð eftir Yugo Serikawa frá 1963
Astro boy eftir Osamu Tezuka frá 1963

Takmörkuð hreyfing

Eiichi Yamamoto sem kom að framleiðslu Astro Boy seríunnar nefnir nokkur atriði sem fylgdu takmarkaðri hreyfingu og spöruðu tíma og peninga. Þar á meðal eru:

  1. Að skjóta þrjá ramma af filmu fyrir hverja teikningu í staðinn fyrir einn eða tvo og skapa þannig tilfinningu fyrir flæðandi hreyfingu.

  2. Að nota aðeins eina teikningu í kyrrum skotum, þegar myndað er andlit persónu í nærmynd.

  3. súmma" inn og út á andlit og að hreyfa eina teikningu fyrir framan myndavélina til að skapa hreyfingu í einni mynd.

  4. Að skjóta eina stutta hreyfimyndasenu sem síðan er notuð aftur og aftur meðan bakgrunnurinn er látinn hreyfast. Þetta var sérstaklega gagnlegt fyrir endurteknar hreyfingar eins og að ganga og hlaupa.

  5. Þegar persóna hreyfir handlegg eða fótlegg er aðeins sá hluti hreyfður og allt hitt skotið út frá einni teikningu.

  6. Að láta aðeins munninn hreyfast og það takmarkað, opna loka, til að gefa í skyn að persóna sé að tala.

  7. Að búa til safn myndefnis til að nota aftur og aftur í ólíkum senum.

Með þessum aðferðum var heill iðnaður byggður upp, svo og sérstakur stíll. Vandmálið hinsvegar var að með þessu vöndust kaupendur því að anime væri ódýrt efni og á síðari árum, þegar aðrir leikstjórar, eins og til dæmis Miyazaki, vilja gera flæðandi hreyfimyndir fá þeir ekki nægilegt fjármagn til þess. Þessvegna er nú mikið af anime gert í Kóreu, þarsem vinnuaflið er ódýrara.

Þess má geta að allar þessar aðferðir hafa einnig verið notaðar víðar þegar unnið er með takmarkaða hreyfingu, og að það var ekki bara í Japan sem þessi tækni var gerð að listformi. Hinsvegar er þessi stíll alltaf tengdur anime því þar er magnið af þessu mest og Japanir hafa þróað sinn eigin stíl útfrá því. Takmarkaða hreyfingin skilur meira eftir fyrir ímyndunarafl áhorfandans sem þarf meira að fylla upp í eyðurnar. Þetta er eitt af því sem er álitið sérlega heillandi við anime og með þessu móti lifir áhorfandinn sig meira inn í myndirnar.


Miyazaki

Eftir að Astro Boy serían sló í gegn hófst framleiðsla á anime af fullum krafti og á áttunda áratugnum var byrjað að framleiða þætti sem höfðuðu einnig til unglinga. Það er svo ekki fyrr en á níunda áratugnum, með myndum Miyazaki sem anime kvikmyndir verða áberandi og höfða til fullorðinna einnig. Myndir Miyazaki eru vissulega barnaefni, en þær fjalla um þannig viðfangsefni að þær höfða jafnt til fullorðinna. Í kjölfar Miyazaki komu svo fleiri hreyfimyndagerðarmenn sem gerðu teiknimyndir fyrst og fremst fyrir fullorðna, dæmi um slíkan er Satoshi Kon sem gerði meðal annars myndirnar Perfect Blue (1998) og Paprika (2006). Einnig má nefna hér þær myndir sem urðu hvað vinsælastar á Vesturlöndum, Akira eftir Katsuhiro Ôtomo (1988) og Ghost in the Shell eftir Mamoru Oshii (1995), en báðar þessar mynda eru fyrir eldri áhorfendur, frá unglingum og uppúr.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að anime hefur náð svona mikilli útbreiðslu og vinsældum. Viðfangsefnin eru iðulega flókin og átakamikil og jafnvel drungaleg, þrátt fyrir að fyrir utanaðkomandi virðist þetta efni ganga út á hasar og húmor. Þáttaraðirnar eru alllangar sem gerir það að verkum að áhorfandi sogast inn í heim þáttanna - þetta eru framhaldsþættir sem segja heila sögu en ekki stuttar skissur með sömu persónum eins og er algengara með vestrænt efni. Myndir Miyazaki eru gott dæmi um þetta, en þær fjalla til dæmis um trúarbrögð og stöðu þeirra í nútímanum, umhverfisvernd og eru ádeila á stríð. Fyrsta mynd Miyazakis var Navsíka úr dali vindsins (Kaze no Tani no Naushika 1984), umhverfisvænt framtíðarævintýri sem segir frá prinsessunni Navsíku og baráttu hennar við að vernda jörðina sem hefur að meira eða minna leyti verið lögð í eyði eða gerð óbyggileg vegna langvarandi misnotkunar mannanna. Navsíka er náttúrubarn sem er í tengslum við jörðina og þau skrýmsli sem hana byggja í kjölfar eyðingarinnar.

Á sama hátt er Prinsessa Mononoke (Mononoke Hime 1997) eftir Miyazaki ævintýri með umhverfisverndarboðskap, nema hún gerist í forsögulegri fortíð Japan, á miklum umhleypingatímum. Náttúran er miskunnarlaust rányrkt og hinn ungi Ashitaka kallar óvart yfir sig bölvun þegar hann drepur verndarvætt skógarins. Hann leggur í leiðangur í leit að uppruna bölvunarinnar og hittir fyrir leiðtoga rányrkjaranna Lady Eboshi og fulltrúa náttúrunnar Mononoke prinsessu, sem er fósturdóttir úlfa, og er tilbúin að deyja í baráttunni gegn græðgi mannanna.

Í Laputa: fljúgandi kastalinn (Tenkuu no Shiro Rapyuta 1986) og Hinum kvika kastala Howls (Hauru no Ugoku Shiro 2004) deilir Miyazaki á stríð.

Í Laputa er kvenhetja í aðalhlutverki, líkt og í öðrum myndum Miyazaki (en það er stundum sagt að ein ástæðan fyrir vinsældum anime sé sætar kvenhetjur í stuttum pilsum). Kvenhetjan er hin munaðarlausa Sheeta sem er elt bæði af illmennum úr hernum og illskeyttum sjóræningjum, allir sækjast þeir eftir steininum sem hún ber um hálsinn og er erfðagripur. Steinninn hefur töfravald, lífgar dauðan róbót og vísar veginn til fljúgandi eyjunnar. Enn birtist hér gagnrýni Miyazaki á valdagræðgi og hernað, Sheeta óttast mátt steinsins og vill eyða honum, en annar afkomandi konungsfjölskyldunnar frá Laputa vill nota hann til að verða valdamikill stríðsherra.

Kastali Howls
er einnig dæmi um stöðuga gagnrýni Miyazaki á stríðsrekstur en sagan gerist í Evrópu á einhverskonar viktoríkönskum tíma, stríð vofir yfir og konungurinn vill fá Howl til hjálpar. Howl er frægur fyrir að stela hjörtum ungmeyja, en aðalsöguhetjan Sophie óttast hann ekki, hún er ekki nógu falleg til að freista Howls. En þó liggja leiðir þeirra saman sem verður til þess að vond norn leggur á hana þau álög að hún verður gömul. Sophie flýr og sest að í kastala Howls og svo hefst ótrúlegt ævintýri.

Trúarbrögð eru viðfangsefni tveggja ástsælustu mynda Miyazaki, Nágranni minn Totoro (Tonari no Totoro 1988) og Chihiro og álögin (Sen to Chihiro no Kamikakushi 2001).

Nágranni minn Totoro er lítið ævintýri um tvær litlar stelpur, Satsuki og Mei, sem flytja með pabba sínum í nýtt hús úti í skógi. Mamman er á spítala og stelpurnar sakna hennar ákaft. Mei litla er síforvitin og rambar inn í rjóður einskonar risastórs bangsa, Totoro, sem pabbi hennar segir að sé sjálfsagt konungur skógarins. Með stelpunum og Totoro tekst svo vinskapur. Myndin sækir efnivið sinn í náttúruvættatrú Japana, svokallaða Shinto-hefð, en hún er einskonar blanda forfeðra- og náttúrudýrkunar. Við hliðina á nýja (sem þó er svo gamalt að það er að hruni komið) húsinu er Shinto-skrín og eftir að Mei hittir Totoro fer pabbinn með stelpurnar þangað til að votta anda skógarins (sem einnig tekur á sig mynd risastórs trés) virðingu sína.

Sagan um Chihiro og álögin sem lögð eru á foreldra hennar er einnig byggð á náttúruvættatrú Shinto, líkt og reyndar bæði Navsíka og Mononoke. Chihiro er á ferð með foreldrum sínum og þau villast og eru skyndilega stödd við hlið sem virðist opnast inn í yfirgefinn skemmtigarð. Eitthvað lífsmark er þó að finna því í einu veitingahúsanna er mikill matur á borðum (matarfórnir eru hluti af Shinto). Foreldrar Chihiro setjast strax að réttunum og raða í sig með þeim afleiðingum að þau breytast í svín. Og í ljós kemur að þetta er heimur andanna, foreldrarnir eru fangar þeirra og það kemur í hlut Chihiro að bjarga málunum. Hún ræður sig til vinnu í höll illrar nornar, sem þarna ræður öllu, og kemst í kynni við strák sem reynir að hjálpa henni, en hann er undir álögum nornarinnar eins og fleiri í höllinni.

Prinsessa Monoke eftir Miyazaki frá 1997

Laputa: fljúgandi kastalinn eftir Miyazaki frá 1986.

Hinn hvíti kastali Howl eftir Miyazaki frá 2004
Nágranni minn Totoro eftir Miyazaki frá 1988
Chihiro og álögin eftir Miyazaki frá 2001

Miyazaki nýtir sér takmarkaða hreyfingu á mjög flottan hátt, þrátt fyrir að vinna ekki eingöngu með þá tækni. Einkenni mynda hans eru nákvæmir og glæsilegir bakgrunnar, yfirleitt málaðir með vatnslitum sem gera myndirnar að veislu fyrir augað. Þetta gerir það að verkum að þrátt fyrir að myndirnar séu fyrst og fremst ætlaðar börnum þá höfða þær fullt eins til eldri áhorfenda og hér á Vesturlöndum hafa myndir hans reyndar meira fylgi meðal fullorðinna en barna, allavega enn sem komið er.

Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is