Inga Ósk Ásgeirsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir:
Kennsluvefur um myndlestur


 

SÍÐAN

MYNDLESTUR

MYNDASÖGUR

MYNDABÆKUR

HREYFIMYNDIR

Tegundir hreyfimynda

Tegundir hreyfimynda

Saga hreyfimynda

Anime

Íslenskar hreyfimyndir

Heimildir

Verkefni og ítarefni

Hér verður fjallað stuttlega um tegundir hreyfimynda (animation). Orðið hreyfimyndir er notað frekar en teiknimyndir enda er ekki nema hluti hreyfimynda teiknaður. Aðallega er stuðst við bókina Animation Art (2004).

Á fyrstu árum tuttugustu aldar koma fram fyrstu hreyfimyndirnar og fyrstu kvikmyndirnar en bæði formin byggja á tilraunum manna til að láta myndir hreyfast. Þessar tilraunir eiga sér samtímis stað í Evrópu og Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum markaði mynd Windsor McCay um risaeðluna Gertí, Gertie the Dinosaur (1914) ákveðin straumhvörf. McCay er einnig brautryðjandi í myndasögum og Gertí var teiknuð mynd. Í Evrópu, nánar tiltekið í Frakklandi, gerði Emile Cohl tilraunir með myndir byggðar á stopp-hreyfingu (stop-motion) og útbjó meðal annars litla mynd þar sem hann raðaði eldspýtum í beinagrindaform og lét þær dansa (1908). Vegna þessara mynda meðal annarra er tilhneiging til að tengja teiknaðar myndir meira við Bandaríkin en stopp-hreyfðar myndir við Evrópu.

Munurinn á þessum tveimur aðferðum felst í því að í teiknimyndum er hver rammi teiknaður og teikningarnar síðan myndaðar og felldar saman í óslitna hreyfingu, en í stopp-hreyfimyndum eru búnar til fígúrur sem eru myndaðar í ólíkum stellingum og síðan felldar saman í samfellda hreyfingu. Við stopp-hreyfingu er notast við brúður, leir eða úrklippur en einnig má nefna skuggamyndir. Fljótlega var farið að nota glærur í teiknuðum myndum til að ekki þyrfti lengur að teikna hvern ramma frá grunni. Eins voru búnar til fjölmargar útgáfur af hverri fígúru í stopp-hreyfimyndum og þeim skipt út eftir þörfum til að mynda hreyfingu.

Teiknaðar myndir skipast aðallega í tvo flokka, annarsvegar það sem kalla má full(komn)a hreyfingu og hinsvegar það sem nefnt hefur verið takmörkuð hreyfing. Japanskar teiknimyndir (anime) eru dæmi um takmarkaða hreyfingu. Það er þó nokkur einföldun, því takmörkuð hreyfing hefur einnig verið notuð mikið í Bandaríkjunum (í Flintstones til dæmis) og víðar, auk þess sem anime byggir ekki allt á takmarkaðri hreyfingu.

Þriðja aðferðin er síðan tölvuteikning, en sú aðferð er nú að taka yfir hreyfimyndagerð. Þá er allt efnið unnið í tölvu og ýmist um að ræða teiknaða áferð, eins og til dæmis í Toy Story (1995) sem var fyrsta tölvuteiknaða myndin í fullri lengd, eða raunsærri verur í leiknum kvikmyndum, eins og Gollrir í Hringadróttinsmyndunum (2001-2003) er frægasta dæmið um. Þar var persóna Gollrirs unnin þannig að leikari lék fyrst veruna til að fá fram eðlilegum hreyfingum. Síðan var veran teiknuð inn í myndina.

Emilie Cohl
Gertie the Dinosaur frá 1914
Elsta anime myndin sem hefur varðveist er frá 1917 og heitir Namakura Katura eða Gott sverð eftir Junichi Kouchi, fjallar um samúæja og er 2 mínútur á lengd.
Toy Story frá 1995
Gollrir í Hingadróttinssögu 2001 til 2003

Ábyrgðarmenn: Inga Ósk Ásgeirsdóttir ingaosk@bhs.is og Úlfhildur Dagsdóttir varulfur@centrum.is